Innlent

Eggert og fjölskylda fengu ekki ríkisborgararétt: „Þetta er bilun“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Eggert, Eggert og Michelle hafa búið hér á landi síðustu tíu ár.
Eggert, Eggert og Michelle hafa búið hér á landi síðustu tíu ár. Facebook/Michelle Nielson

Eggert Einer Nielson fæddist á Landspítalanum í Reykjavík árið 1957 en flutti til Ameríku þegar hann var sjö ára. Móðir hans var íslensk en faðir hans danskur. Hann hefur heimsótt Ísland alla sína ævi og hefur búið hér í átta ár. Eggert er giftur Michelle Lyn Nielson og saman eiga þau tvö börn, þau Eggert Thomas Nielson og Briana Lyn Russell.

Eggert og Michelle búa hér ásamt Eggerti syni sínum og starfa þau öll á Íslandi. Fyrir jólin var þeim synjað um íslenskan ríkisborgararétt og hafa þau því sett húsið sitt á sölu og þurfa að flytja aftur til Bandaríkjanna.

„Þetta er bilun, móðir mín er íslensk. Amma mín líka, ég heimsótti hana á hverju ári, 28 ár í röð þegar ég var yngri. Ég á rætur hér langt aftur,“ segir Eggert í samtali við Vísi.
Amma Eggerts bjó í Reykjavík en í heimsóknum sínum skoðaði Eggert landið vel.

„Ég man kennitöluna mína ennþá, en ég vann stundum hér á sumrin, meðal annars í Mosfellsbæ.“

Ástæðan var fæðingarárið

Eggert ákvað svo eftir hrunið að flytja alveg til Íslands. Fjölskyldan flutti hingað 31. desember árið 2010 og bjó fyrst á Súðavík en flutti svo til Ísafjarðar. Þau hafa sterk tengsl við samfélagið á Vestfjörðum og eru miður sín yfir því að þurfa að yfirgefa landið. Eggert byrjaði meðal annars með bláberjadagana á Súðavík fyrir átta árum þar sem fólk kemur saman, tínir ber og hlustar á tónlist.

„Ég kenni hér á Súðavík og réði lögmann til þess að aðstoða mig.  Þetta er brjálæði en við ætlum að reyna aftur. Ástæðan sem ég fékk var að ég var fæddur fyrir 1960, en konur fengu ekki rétt yfir börnunum sínum fyrr en eftir 1960. Ég þarf að skila inn pappírum varðandi dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun í júlí á hverju ári.“

Þau lög sem voru í gildi við fæðingu einstaklings skera úr um hvort viðkomandi eigi eða hafi átt rétt á íslensku ríkisfangi frá fæðingu. Einstaklingur sem fæddist fyrir 1. júlí 1982 í hjúskap móður sem er íslenskur ríkisborgari og föður sem er erlendur ríkisborgari öðlaðist ekki sjálfkrafa íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu heldur fékk ríkisfang föður, sjá nánar hér.
Eggert segir að þar sem hann sé kennari og viti ekki alltaf vinnutímana sína fyrirfram þá hafi það verið vesen á hverju ári.

„Það er eins og það sé ekki hlustað á aðstæður mínar. Ég get ekki verið með þessar upplýsingar í júlí, ég fæ þær ekki fyrr en í september.“

Frétti á sjúkrahúsinu að hann væri ekki lengur með dvalarleyfi

Eggert starfar við kennslu en konan hans er leiðsögumaður og sonur hans vinnur sem kokkur á Húsinu á Ísafirði. Í nóvember á síðasta ári veiktist Eggert og þurfti að liggja inni á sjúkrahúsi.
„Ég var þar í fimm daga. Það var hugsað alveg ótrúlega vel um mig. Þegar ég var útskrifaður fékk ég reikning upp á 340 þúsund krónur og þeir segja að ég sé ekki skráður hér á landi. Ég vinn í skólanum og er enn að borga í kerfið,“ segir Eggert en hann hafði þá verið skráður búsettur í Bandaríkjunum. 

„Ég borgaði ekki reikninginn því þetta er fáránlegt.“

Hann telur að Útlendingastofnun hafi skráð hann búsettan í Bandaríkjunum þegar hann gat ekki skilað inn pappírunum í júlí á síðasta ári. Um jólin var þeim synjað um ríkisborgararétt.

„Ég hef unnið í skólanum í sjö ár og þetta er eins á hverju ári en enginn hlustar. Ég bý á Ísafirði og þarf að fara til Reykjavíkur í Útlendingastofnun og gera þetta á hverju ári.“

Finnst hann ekki velkominn
Eggert skilur ekki af hverju hann fái ekki að vera hérna, hann sé fæddur hér og hafi komið hingað alla sína ævi. Þegar móðir hans lést fyrir fjórum árum í Bandaríkjunum var aska hennar flutt til Íslands og hún grafin í kirkjugarði hér á landi, hjá öðrum fjölskyldumeðlimum. 

„Við erum öll þrjú að reyna að fá dvalarleyfi aftur. Ég hef ekkert heyrt svo eftir minni bestu vitneskju er ég hér ólöglega núna.“

Hús fjölskyldunnar fór á sölu á mánudag og hafa margir íbúar á Vestfjörðum þannig frétt af aðstæðum þeirra.

„Ef ég er ekki velkominn hér þá þarf ég að fara aftur til Bandaríkjanna,“ segir Eggert sem stefnir á flutninga um leið og húsið selst.

Fordæmir þessi vinnubrögð
Einn þeirra sem hefur vakið athygli á málinu á Facebook er Guðjón Þorsteinsson, íbúi á Ísafirði. Guðjón skrifar um Eggert:

„Hann hefur keypt eignir og gert upp. Hann hefur kennt börnum tónlist af þvílíkri natni. Hann er með bláberjadagana í Súðavík á haustin þar sem fjöldi erlendra og innlendra listamanna hafa komið til okkar. Hann hefur ekið börnum frá Súðavík í sund til Bolungarvíkur. Hann hefur verið með tónleika og uppákomur eins langt og ég man hér og víða annars staðar.“

Gaui segir að Eggert hafi síðustu ár myndað tengsl við landið og gert samfélagið betra og hvetur hann Vestfirðinga til að láta heyra í sér. Sendir hann ákall á Ásmund Einar Daðason, Lilju Rafney Magnúsdóttur, Guðjón S. Brjánsson og Höllu Signý Kristjánsdóttur.

„Við tökum á móti flóttamönnum sem er góðra gjalda vert og komi þeir fagnandi. En ég fordæmi þessi vinnubrögð. Það eina sem þau hafa gert er að vera stórkostlegt fólk, vandað og hafa kennt okkur Vestfirðingum mikið. Ég trúi því ekki að þetta verði raunin og bið um hjálp til að vekja athygli á málinu. Ég er svo sár og reiður út af þessu máli.“

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.