Skoðun

Eru skuldabréfalán ólöglega innheimt?

Guðbjörn Jónsson skrifar
Spurningin í fyrirsögn þessara skrifa er dálítið hörð og ákveðin. Allar líkur benda hins vegar til að hún sé sönn. Ég var á sínum tíma fulltrúi í hagdeild banka og þekki því vel alla helstu skilmálaþætti skuldabréfalána.

Ég hef margítrekað reynt að benda á hugmynda- og reiknivillu sem viðhöfð er við innheimtu skuldabréfalána hér á landi, en því miður enn án árangurs. Þess vegna fór ég nú aðra leið. Ég bjó til myndband þar sem ég útskýri nokkra helstu og mikilvægustu þætti hinna röngu vinnubragða við útreikning skuldabréfa.

Það er mjög margt við framkvæmd verðtryggingar sem ekki eru lagaforsendur fyrir en hinni ólöglegu framkvæmd þó haldið áfram ár eftir ár. Ég á afar bágt með að trúa því að þeir sem annast hafa forstöðu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka undanfarna þrjá áratugi hafi ekki orðið varir við gagnrýni mína á þessar ólöglegu útreikniaðferðir og innheimtur. Blekkingarnar finnst mér hafa náð hámarki að undanförnu, þar sem framámenn í stjórnmálum og fjármálum hafa kappkostað að telja fólki trú um að hin svonefndu 40 ára jafngreiðslulán, séu óhagkvæmustu lánin fyrir lántakana.

Hið rétta er algjör gagnstæða, eins og þið munuð sjá glöggt dæmi um í myndbandinu. Þar eru raktar helstu villurnar í útreikningi „jafngreiðslulána“ með skýru dæmi úr 16 ára sögu jafngreiðsluláns frá Íbúðalánasjóði og ýmis fleiri atriði. Ég mæli með að fólk kynni sér þær mikilvægu staðreyndir sem fram koma í þessu myndbandi og standi síðan saman í að berjast fyrir réttlátri leiðréttingu og réttum vinnubrögðum við útreikninga og innheimtu langtíma jafngreiðslulána.

Höfundur er fyrrverandi fulltrúi í hagdeild banka.




Skoðun

Sjá meira


×