Gagnrýni

Á vængjum ástarinnar

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Lói er varla skriðinn úr egginu þegar áföllin dynja yfir en margur er knár þótt hann sé smár.
Lói er varla skriðinn úr egginu þegar áföllin dynja yfir en margur er knár þótt hann sé smár.
Kvikmyndir



Lói – Þú flýgur aldrei einn



HHHHH



Leikstjórn: Árni Ólafur Ásgeirsson



Handrit: Friðrik Erlingsson



Aðalhlutverk: Matthías Matthíasson, Rakel Björgvinsdóttir, Arnar Jónsson



Lói litli er lóuungi sem er ekki orðinn fleygur þegar hann fær að kynnast því að lífið getur verið miskunnarlaust. Áfallastreituröskun verður síðan til þess að hann getur ekki flogið. Afleitt fyrir farfugl og fótgangandi þarf hann, einn og yfirgefinn, að berjast fyrir lífi sínu þegar veturinn skellur á af fullum þunga.

Myndin er í grunninn sígild þroska­saga hetjunnar ungu sem þarf að ganga í gegnum eldraunir áður en hún finnur neistann sem kippir henni í gír og sýnir allt sem í henni býr, eins og sálarskáldin orðuðu það.

Lói staldrar við allar helstu vörðurnar á ferðalagi hetjunnar. Gamli og gáfaði leiðbeinandinn er á sínum stað, fulltrúi hins illa er á sínum stað og ástin auðvitað líka.

Sagan er bráðskemmtileg og líkleg til þess að heilla krakkana sem myndin er fyrst og fremst gerð fyrir. Og góðu heilli er hún nógu þroskuð til þess að þeim fullorðnu leiðist ekki. Þar munar mest um spriklandi skemmtilegar aukapersónurnar, bölsýnu rjúpuna Karra og morðóðan og sísvangan fálkann Skugga. Annars er persónugalleríið heilt yfir ansi gott, fullt af alls konar kunnuglegum dýrum í nett víruðum útlitspælingum.

Tölvuteikningin á myndinni er býsna tilkomumikil og myndin bæði litskrúðug og áferðarfögur. Gengið var frá sölu á myndinni til slíks fjölda landa, áður en hún var frumsýnd á Íslandi, að fáheyrt verður að teljast þegar íslensk teiknimynd er annars vegar.

Kemur samt ekki á óvart þar sem myndin er haganlega saman sett, einhvern veginn alíslensk í grunninn en með alþjóðlegu yfirbragði þannig að söguheimurinn getur verið hvar sem er. Það er svo ekki síst ánægjulegt að höfundarnir fara sparlega með Disney-glassúrinn þannig að háski og sorgir Lóa verða raunverulegri en gengur og gerist í teiknimyndum.

Tíu ára aðstoðarrýnirinn minn og fulltrúi markhópsins hún Ragnheiður Björt gefur Lóa bestu hugsanlegu meðmæli og þar sem börnin eru bestu gagnrýnendurnir í þessum efnum gef ég henni bara orðið: „Pabbi, gefðu henni fimm stjörnur.“

Niðurstaða: Feykilega vel heppnuð teiknimynd. Áferðarfögur, fyndin, spennandi og falleg. Fullt hús stjarna að skipun einnar tíu ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×