Newcastle skellti Man. Utd.

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Matt Ritchie, markaskorari Newcastle.
Matt Ritchie, markaskorari Newcastle. Vísir/Getty
Óvænt úrslit litu dagsins ljós á St. James Park í Newcastle í dag þegar að heimamenn unnu 1-0 sigur gegn Manchester United. Var þetta fyrsti heimasigur Newcastle síðan 21 .október.

Fyrri hálfleikur var frekar atvikalaus og leit fyrsta færi leiksins ekki dagsins ljós fyrren á 35. mínútu. Anthony Martial komst þá inn fyrir vörn Newcastle eftir frábæra stungusendingu Matic, en fór hann illa að ráði sínu.

Tveim mínútum síðar vildi Newcastle fá víti og virtust þeir eiga nokkuð til síns máls. Chris Smalling steig klaufalega á Dwight Gayle á vítateigslínunni en dómari leiksins, Craig Pawson, flautaði ekki við litla hrifningu heimamanna.

Síðasta færi fyrri hálfleiksins fékk Romelu Lukaku, eftir frábæran undirbúning Alexis Sanchez, en varnarmenn Newcastle gerðu vel í því að koma sér fyrir skot hans. Staðan var því markalaus þegar liðin gengju til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur var mun skemmtilegri en sá fyrri. 

Á 53. mínútu skoraði Lukaku en markið var réttilega dæmt af vegna bakhrindingar. Tveim mínútum síðar hefði Alexis Sanches síðan átt að koma gestunum yfir en hann var of lengi að athafna sig eftir að hafa komist framhjá Dubravka í marki Newcastle sem gerði Florian Lejeune kleift að verja skot hans með fætinum.

Matt Ritchie braut síðan ísinn og kom Newcastle yfir gegn gangi leiksins á 64. mínútu með óverjandi skoti eftir glæsilegan undirbúning Dwight Gayle.

Þrátt fyrir að leikmenn United hafi sótt látlaust eftir þetta náðu þeir ekki að jafna metin. Voru þeir klaufar fyrir framan mark Newcastle, þá sérstaklega Martial sem fór illa með annað frábært færi á 75. mínútu.

Eftir leikinn er Newcastle í 13. sæti með 28 stig. United er áfram í 2. sæti með 56. stig, 16 stigum á eftir grönnum sínum úr City.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira