Erlent

Ráðamenn keppast við að fordæma tilraunir á dýrum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Volkswagen Golf.
Volkswagen Golf. vísir/afp
Ríkisstjórn Þýskalands fordæmdi í gær tilraunir sem EUGT, samtök bílaframleiðandanna Volkswagen, Daimler og BMW, gerðu á bæði öpum og mönnum árið 2014. „Tilraunir á öpum og jafnvel mönnum er ekki hægt að réttlæta á neina vegu,“ sagði Steffen Seibert, talsmaður Angelu Merkel kanslara.

Umhverfisráðherrann Barbara Hendricks tók í sama streng. Sagði hún tilraunirnar „viðurstyggilegar“ og að hún væri hneyksluð á því að nokkur vísindamaður hefði tekið þær að sér.

Um er að ræða tilraunir sem New York Times greindi frá á fimmtudag. Lét EUGT gera tilraunirnar til að fá ákvörðun Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar frá árinu 2012 um að dísilolía væri krabbameinsvaldandi snúið við.

Í umfjöllun Times kom fram að tíu apar hefðu verið lokaðir inni í innsigluðu rými og látnir anda að sér útblæstri nokkurra bíla í tilraunastofu í Nýju-Mexíkó.

Bæði Stuttgarter Zeitung og SWR Radio greindu frá því um helgina að nítján karlar og sex konur hefðu tekið þátt í sambærilegri tilraun fyrir EUGT í tilraunastofu í Aach­en.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×