Enski boltinn

Allardyce: Rooney og Gylfi geta ekki spilað saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney.
Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney. Vísir/Getty
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Everton, segir að þeir Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney séu hæfileikaríkir leikmenn en vandamálið sé að hann geti ekki notaða þá báða á sama tíma. Ástæðan er að það er ekki pláss fyrir tvo leikmenn sem fara ekki hraðar yfir.

Gylfi Þór Sigurðsson var kominn í sína uppáhaldsstöðu, fremst á miðjunni, í 1-1 jafntefli Everton og West Bromwich Albion í ensku úrvalsdeildinni um helgina en Wayne Rooney þurfti að sætta sig við setu á bekknum.

Wayne Rooney kom inn á sem varamaður, lífgaði upp á sóknarleikinn og átti þátt í jöfnunarmarkinu. Það mun samt ekki breyta skoðun Allardyce sem vill ekki nota þá Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney saman inn á vellinum.



„Í síðustu viku sagði ég að við þyrftum meiri hraða í liðið. Við náðum að auka hraðann með því að fá Theo [Walcott] til okkar og það gerum við líka þegar Yannick [Bolasie] kemst aftur í sitt besta form á miðjunni. Við verðum að geta komist um völlinn,“ sagði Sam Allardyce í viðtali við Guardian.  

„Rooney og Gylfi eru mjög klárir og klókir fótboltamenn með mikla hæfileika en það er ekki þeirra styrkur að komast hratt um völlinn. Ég þarf því að taka stóra ákvörðun um hvor þeirra spilar og hvor þeirra situr á bekknum. Gylfi hefur verið út á kanti en nú vildi ég spila honum í stöðunni sem hann vill spila og sjá hvað hann gæti,“ sagði Allardyce.

Gylfi er fjórum árum yngri en Rooney og hefur verið að spila betur eftir sem liðið hefur á tímabilið. Það fylgir því hinsvegar mikil pressa að vera að halda manni eins og Wayne Rooney út úr byrjunarliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×