Erlent

Páfinn biðst afsökunar á að hafa sært fórnarlömb kynferðisofbeldis

Kjartan Kjartansson skrifar
Páfi segist ekki hafa gert sér grein fyrir að málsvörn hans fyrir síleskan biskup gæti sært fórnarlömb kynferðisofbeldis.
Páfi segist ekki hafa gert sér grein fyrir að málsvörn hans fyrir síleskan biskup gæti sært fórnarlömb kynferðisofbeldis. Vísir/AFP
Frans páfi hefur beðið fórnarlömb kynferðisofbeldis afsökunar á að hafa varið biskup sem sakaður er um að hafa hylmt yfir misnotkun presta í heimsókn í Síle í síðustu viku. Segist hann gera sér grein fyrir því að orð sín hafi sært marga. Hann telur biskupinn engu að síður sýknan saka.

Juan Barros er sakaður um að hafa verið viðstaddur þegar annar prestur misnotaði unga drengi. Fórnarlömbin telja Barros hafa gerst sekan um að hylma yfir brotin. Þegar Frans páfi heimsótti Síle sagði hann að fórnarlömb sem beindu spjótum sínum að Barros færu með róg um hann.

Sean O‘Malley, kardináli frá Boston, gagnrýndi páfa opinberlega fyrir þessi ummæli. Með þeim teldu fórnarlömb kynferðisofbeldi að hann hefði yfirgefið þau, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Ég bið þau afsökunar ef ég særði þau án þess að gera mér grein fyrir því en það var sár sem ég veitti án þess að ætla það. Það tekur mig mjög sáran,“ sagði Frans páfi við blaðamenn í flugvélinni sem flutti hann heim til Rómar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×