Fótbolti

Albert búinn að fá nóg af B-liðinu: „Þið sjáið mig ekki aftur þar í bráð“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Albert Guðmundsson minnti heldur betur á sig hjá PSV Eindhoven um helgina þegar að hann lagði upp sigurmark liðsins í sigri á Heracles, 2-1.

Albert fór einnig hamförum með íslenska landsliðinu í Indónesíu fyrr í mánuðinum þar sem hann gaf fjórar stoðsendingar í fyrri leiknum og skoraði þrennu í þeim síðari.

Þessi 21 árs gamli vesturbæingur vonast, eins og allir íslenskir fótboltamenn, eftir því að vera í HM-hóp Heimis Hallgrímssonar í sumar og aukast líkurnar á því að það gerist með hverjum leiknum þessa dagana.

Albert hefur ekki fengið mörg tækifæri með aðalliði PSV en hann hefur fimm sinnum komið inn á sem varamaður undir lokin á þessu tímabili og spilað í heildina fimmtán mínútur.

Hann hefur aftur á móti farið á kostum með B-liðinu, Jong PSV, í næstefstu deild en þar skoraði hann 18 mörk í fyrra og er búinn að skora fimm og leggja upp önnur fjögur á þessu tímabili.

Albert er aftur á móti kominn með nóg af því að spila fyrir B-liðið enda áttar hann sig á því að líkurnar á að fara til Rússlands eru töluvert meiri ef hann fær að spila með aðalliðinu.

„Þið sjáið mig ekki aftur þar í bráð,“ segir Albert um Jong PSV í viðtali við Eindhoven Dagblad. „Ég þarf að sýna hvað ég get með aðalliðinu og halda áfram að bæta mig.“

Aðspurður hvort hann hefði ekki átt að koma fyrr inn á í leiknum svarar Albert: „Það fannst mér þegar að ég sat á bekknum. Mér leið eins og þetta væri mitt tækifæri. Sem betur fer þurfti ég bara sjö mínútur í dag,“ sagði Albert Guðmundsson.


Tengdar fréttir

Sjáðu markið sem Albert lagði upp

Albert Guðmundsson lagði upp sigurmark PSV í uppbótartíma gegn Heracles á útvielli í hollensku úrvalsdeildinni í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×