Fótbolti

Þjálfari Nígeríu: Ísland er ekki með mestu tæknina en það spilar eins og lið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson fagnar sigurmarki sínu á móti Englendingum á EM 2016.
Kolbeinn Sigþórsson fagnar sigurmarki sínu á móti Englendingum á EM 2016. Vísir/Getty
Þjóðverjanum Gernot Rohr, þjálfara nígeríska landsliðsins í fótbolta, líst ekkert á D-riðilinn á HM 2018 sem Nígeríumenn drógust í og lái honum hver sem vill.

Nígería mætir Lionel Messi og félögum í Argentínu, frábæru liði Króata og auðvitað strákunum okkar en Ísland og Nígería eigast við í Volgograd 22. júní í sumar.

„Fyrsta markmiðið verður bara að komast upp úr riðlinum. Það er mikilvægast en þá þurfum við að ná öðru sætinu. Það verður mjög erfitt því við erum með mjög góðum liðum í riðli,“ segir Rohr í viðtali við New Telegraph.

Sá þýski segir nokkuð augljóst af hverju Argentínumenn eru svona sterkir og bendir á að Króatía sé með miðjumenn sem leika hjá Barcelona og Real Madrid og framherja hjá Inter. Hann sér einnig fram á mjög erfiðan leik gegn litla Íslandi sem verður nýliði á HM í Rússlandi.

„Leikur tvö á móti Íslandi verður erfiður. Þetta er lið sem vann England á EM 2016 í Frakklandi. Íslenska liðið er ekki með bestu tæknina en það spilar eins og lið og þess vegna er erfitt að vinna það,“ segir Gernot Rohr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×