Handbolti

Óvíst hvort Rakel snúi aftur á völlinn: „Sný aldrei alveg baki við handboltanum“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir, ein reyndasta handknattleikskona landsins, mun ekki leika meira með Stjörnunni í vetur en hún gengur með sitt annað barn. Rakel var í ótímabundinni pásu eftir höfuðhögg sem hún hlaut fyrr í vetur, en nú er ljóst að pásan verður að minnsta kosti fram á næsta haust.

Rakel var atvinnumaður í Noregi og Danmörku og lengi vel fyrirliði íslenska landsliðsins. Hún var burðarás í liðinu sem keppti á EM í Danmörku árið 2010, fyrsta stórmóti sem íslenska kvennalandsliðið keppti á. Hún segir það ekki víst að hún muni taka skóna fram aftur á næsta tímabili.

„Núna ætla ég að einbeita mér að þessu verkefni sem bíður mín. Ef að allt gengur vel og eftir óskum þá ætla ég að taka stöðuna í haust. Það er allavega ekki stórt markmið hjá mér að spila aftur næsta vetur,“ sagði Rakel í viðtali við Eirík Stefán Ásgeirsson í Sportpakkanum í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Rakel lagði skóna á hilluna fyrir fjórum árum vegna höfuðmeiðsla en kom þó aftur til baka á völlinn. Þrátt fyrir að vera óviss með það hvort hún ætli að koma aftur sem leikmaður, segist hún þó líklegast aldrei skilja alveg við handboltann.

„Ég hef mikinn áhuga á þjálfun. Ég sé ekki fyrir mér að ég eigi eftir að snúa alveg baki við handboltanum,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×