Innlent

Óskaði eftir gögnum frá ráðherra vegna skipunar dómara við Landsrétt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gögnin sem Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, óskaði eftir vörðuðu meðal annars upplýsingar um þá ráðgjafa sem ráðherra leitaði til vegna skipunar dómara við Landsrétt, bæði innan og utan dómsmálaráðuneytisins.
Gögnin sem Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, óskaði eftir vörðuðu meðal annars upplýsingar um þá ráðgjafa sem ráðherra leitaði til vegna skipunar dómara við Landsrétt, bæði innan og utan dómsmálaráðuneytisins. vísir/vilhelm

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, ritaði Sigríði Andersen, dómsmálaráðherra, bréf þann 8. janúar síðastliðinn þar sem hann óskaði eftir gögnum frá henni vegna skipunar dómara við Landsrétt.

Fyrst var greint frá málinu í kvöldfréttum RÚV en Tryggi segist í samtali við Vísi hafa óskað eftir gögnunum fyrst og fremst til að undirbúa sig fyrir fund með stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd þann 18. janúar síðastliðinn. Gögnin bárust umboðsmanni að morgni þess sama dags.   

„Þann 8. janúar þá sendi ég ráðherra bréf og bið um tilteknar upplýsingar til þess að undirbúa mig fyrir þennan fund og þá, eftir atvikum, ef einhver þau atriði eru þarna sem ég gæti talið tilefni til þess að skoða betur síðar að eigin frumkvæði,“ segir Tryggvi.

Gögnin sem umboðsmaður óskaði eftir vörðuðu meðal annars upplýsingar um þá ráðgjafa sem ráðherra leitaði til vegna skipunar dómara við Landsrétt, bæði innan og utan dómsmálaráðuneytisins.

Aðspurður kveðst Tryggvi að hann muni ekki aðhafast frekar í málinu á meðan það er til meðferðar á Alþingi.

Stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd þingsins kannar nú verklag og ákvarðanir dómsmálaráðherra við skipun dómara við Landsrétt en eins og kunnugt er komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í desember að ráðherra hefði brotið lög með skipuninni.


Tengdar fréttir

Stjórnarandstaðan sökuð um hávaða og pólitískan skrípaleik

Dómsmálaráðherra segir Pírata hafa það markmið að koma henni úr embætti. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sakaði stjórnarandstöðuna á Alþingi í dag um pólitískan hráskinnaleik, hávaða og skrípaleik í umræðum um skipan ráðherrans á dómurum í Landsdóm í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×