Innlent

Björgunarsveitarmenn aðstoða ökumenn sem sitja fastir á fjallvegum

Kjartan Kjartansson skrifar
Vegagerðin hefur lokað vegunum um Vopnafjarðarheiði og Mývatns- og Möðrudalsöræfi.
Vegagerðin hefur lokað vegunum um Vopnafjarðarheiði og Mývatns- og Möðrudalsöræfi. Vísir/Vilhelm
Ökumenn nokkurra bíla sitja nú fastir í ófærð á Vopnafjarðarheiði og Mývatns- og Möðrudalsöræfum. Þrjár björgunarsveitir hafa verið kallaðar út til að aðstoða fólkið. Skafrenningur, blinda, myrkur og rok er á svæðunum.

„Bara ekta íslenskar vetraraðstæður á fjallvegum,“ segir Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu um aðstæðurnar sem eru á svæðunum þessa stundina. Samkvæmt vef Vegagerðarinnar eru báðir vegir lokaðir.

Gul veðurviðvörun er í gildi á norðan- og austanverðu landinu. Spáð er mestri úrkomu á Norðausturlandi í hríðaveðri.

Ekki liggur fyrir hversu margir bílar sitja fastir, að sögn Jónasar. Fólkið í þeim verður flutt til næstu byggða.

Fyrst var björgunarsveit frá Vopnafirði kölluð út upp úr klukkan sjö í kvöld. Tvær aðrar sveitir voru ræstar út um klukkutíma síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×