Körfubolti

Drummond svaraði ekki bara á Twitter heldur líka inn á vellinum | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Enginn leikmaður NBA-deildarinnar hafði minni húmor fyrir því að vera ekki valinn í stjörnuleikinn í ár heldur en Andre Drummond, miðherji Detroit Pistons.

Þessi frábæri leikmaður er að skora fjórtán stig og taka fimmtán fráköst að meðaltali í leik en var samt ekki valinn sem varamaður í austurdeildinni þegar að hóparnir voru tilkynntir í gærkvöldi.

Drummond bjóst greinilega við því að vera valinn og þegar að það gerðist ekki fór hann beint á Twitter o gagnrýndi valið óbeint.



„Ætli ég verði ekki að fara handahlaup eftir hverja körfu til að fá einhverja athygli hérna. Ég er að grenja úr hlátri hérna. En, jæja, áfram gakk,“ skrifaði hann.

Drummond til varnar var hann ekki bara að grenja á Twitter heldur svaraði hann fyrir sig inn á vellinum í nótt þegar að hann skoraði 30 stig og tók hvorki fleiri né færri en 24 fráköst, þar af 16 sóknarfráköst, á móti Utah í nótt.

Því miður fyrir Detroit-liðið dugði það ekki til sigurs því Jazz vann með þremur stigum, 98-95, í framlengingu. Í jöfnu liði Utah var það Rudy Gobert sem skoraði mest eða fimmtán stig.

Boston Celtics, topplið austurdeildarinnar, komst aftur á sigurbraut í nótt eftir fjóra tapleiki í röð en liðið vann LA Clippers á útivelli, 113-102.

Kyrie Irving var stigahæstur gestanna með 20 stig auk þess sem hann tók átta fráköst og gaf sjö stoðsendingar en Jayson Tatum skoraði 18 stig.

Úrslit næturinnar:

Charlotte Hornets - New Orleans Pelicans 96-101

Detroit Pistons - Utah Jazz 95-98

Indiana Pacers 116-101

Philadelphia 76ers - Chicago Bulls 115-101

Atlanta Hawks - Toronto Raptors 93-108

Dallas Mavericks - Houston Rockets 97-104

Memphis Grizzlies - San Antonio Spurs 85-108

Portland Trail Blazers - Minnesota Timberwolves 123-114

LA Clippers - Boston Celtics 102-113

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×