Innlent

Fleiri leita til Stígamóta eftir gróft kynferðisofbeldi í samböndum á unglingsárum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Ungar konur leita til Stígamóta í meira mæli nú en áður vegna kynferðisofbeldis í samböndum á unglingsárum. Verkefnastýra hjá Stígamótum segir áhrif klámvæðingarinnar gera það að verkum að ofbeldið er að verða grófara. 
Starfsmenn Stígamóta hafa tekið eftir því að undanförnu að fleiri ungar konur leiti til þeirra vegna kynferðisofbeldis sem þær hafa orðið fyrir í nánum samböndum á unglingsárum.

Að sögn Steinunnar Gyðu- og Guðjónsdóttur, verkefnastýru hjá Stígamótum, hefur ofbeldi í samböndum alltaf verið til. Þróunin er hins vegar ekki góð. „Það sem að við sjáum er mikið andlegt ofbeldi. Mikil stjórnun, sjúkleg afbrýðisemi og yfirleitt fylgir þessu kynferðisofbeldi. Það sem við erum að sjá núna eru áhrifin frá kláminu og það eru allar þessar kröfur um kynlífsathafnir sem margar eru ekki tilbúnar að taka þátt í og meðal annars það sem við sjáum er fjölgun í endaþarmsnauðgunum,“ segir Steinunn.

Hún segir að þannig fari áhrif klámvæðingarinnar beint inn í ástarsambönd unglinga. Þetta rímar við helstu niðurstöður nýrrar rannsóknar á upplifun framhaldsskólanemenda á kynlífsmenningu sem kynntar voru á dögunum en þar kom fram að ungt folk horfir mikið á klám, allt niður í ellefu ára aldur og að kynfræðslan snúist fyrst og framst um kynsjúkdóma og ótímabærar þunganir. Þannig verði klám helsta kynlífsfræðsla unglinga.

„Þannig við erum að sjá miklar pressu á ungar stúlkur að taka þátt í kynlífsathöfnum sem þær kæra sig ekki um,“ segir Steinunn.

Til Stígamóta geta einstaklingar 18 ára og eldri leitað en Stígamót taka ekki á móti unglinglingum undir átján. Barnavernd sveitarfélaganna sér um aðstoð og þjónustu við þann hóp. Steinunn segir að unglingsstúlkur, sem eru yngri en 18 ára, og eru beittar ofbeldi í samböndum veigri sér við að leita sér hjálpar þar sem þær vilji til að mynda ekki að málið sé tilkynnt til lögreglu. Stígamót reyna nú að vekja athygli yfirvalda á þessum vanda.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.