Viðskipti innlent

Spá því að EBITDA Haga lækki um 39 prósent

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga. Vísir/Eyþór
Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir því að rekstrarhagnaður verslunarfélagsins Haga fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) hafi numið 850 milljónum króna á rekstrartímabilinu 1. september til 30. nóvember í fyrra og dregist þannig saman um 39 prósent frá fyrra ári. Er það svipaður samdráttur og á öðrum fjórðungi rekstrarárs félagsins.

Stjórnendur Haga munu birta uppgjör fyrir þriðja fjórðung rekstrarársins á morgun. Greinendur Landsbankans spá því að sala félagsins hafi verið ríflega 17 milljarðar króna á þriðja fjórðungi rekstrarársins en til samanburðar var hún tæpir 19 milljarðar á sama tímabili árið 2016. Gera þeir auk þess ráð fyrir að hagnaður Haga hafi verið 507 milljónir króna á þriðja fjórðungi yfirstandandi rekstrarárs, eða þrjú prósent af sölu, en hann var 874 milljónir, eða 4,6 prósent af sölu, á þriðja fjórðungi rekstrarársins 2016.

Fram kemur í afkomuspá hagfræðideildarinnar að samkeppni á markaðinum sé enn hörð vegna umsvifa Costco og telja sérfræðingar bankans að ekki verði grundvallarbreyting þar á. Mesti samdrátturinn í sölu Haga er þó að mati sérfræðinganna yfirstaðinn. Engu að síður megi áfram búast við að salan dragist saman og verði um 10 prósentum lægri á þriðja fjórðungi rekstrar­ársins en á sama fjórðungi árið 2016.

Greinendur bankans gera ráð fyrir að launakostnaður hafi haldið áfram að hækka á þriðja fjórðungi vegna kjarasamningsbundinna launahækkana og þenslu á vinnumarkaði. Á móti hafi annar rekstrarkostnaður dregist saman vegna lokana verslana. Líklegt sé að fermetrum fyrirtækisins haldi áfram að fækka á komandi misserum.



Fréttin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×