Innlent

Ísafjarðarapp fyrir forvitna ferðalanga

Aron Ingi Guðmundsson skrifar
Haukur Sigurðsson vill leyfa ferðafólki að kynnast sögu bæjarbúa Ísafjarðar.
Haukur Sigurðsson vill leyfa ferðafólki að kynnast sögu bæjarbúa Ísafjarðar. Mynd/Haukur Sigurðsson

Mannfræðingurinn Haukur Sigurðsson frá Ísafirði vinnur að því að setja á fót svokallað Ísafjarðarapp þessa dagana. Með því vill hann upplýsa ferðamenn um sögu bæjarins og fólksins á staðnum.

Prufuútgáfa Ísafjarðarappsins verður tilbúin fyrir sumarið. Mynd/Haukur Sigurðsson

„Margir heimamenn hafa talað um að það geti verið svolítið áreiti af ferðafólki, sérstaklega þeim sem koma með skemmtiferðaskipum. Þetta hefur jafnvel farið út í að ferðafólk sé að gægjast á glugga hjá fólki,“ segir Haukur.

Yfir hundrað skemmtiferðaskip koma til Ísafjarðar á hverju sumri. „Það koma kannski átta þúsund og fimm hundruð manns í bæinn á hverjum degi, í bæ þar sem búa tvö þúsund og fimm hundruð. Það verður því svolítið kraðak og áreiti,“ segir Haukur sem kveður hugmyndina að appinu hafa kviknað er ferðafólk spurði hann ítrekað út í húsið, hann sjálfan og fjölskyldu hans.

„Ég ákvað því að búa til app sem leyfir ferðamönnum að gægjast á glugga bæjarbúa, ekki þó í bókstaflegum skilningi, heldur í gegnum þetta app. Ég ætla að fá nokkra bæjarbúa með mér í lið og framleiða litlar stuttmyndir um fólkið og húsin þeirra, segja frá fjölskyldum þeirra og hvað þau gera. Þannig geta ferðamenn vafrað um Ísafjörð og fræðst um fólkið, bæinn og sögu bæjarins með því að nota appið.“

Haukur segir nokkra aðila koma að verkefninu. „Við erum nokkur sem deilum vinnuaðstöðu í gömlu Skóbúðinni á Ísafirði. Við erum að fara af stað með undirbúningsvinnu núna. Ef vel tekst til þá er aldrei að vita nema maður geti gert svipað fyrir aðra bæi á Vestfjörðum.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.