Enski boltinn

Yfirgaf Everton eftir „vúdú-skilaboð“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lukaku í leik með United.
Lukaku í leik með United. vísir/getty
Romelu Lukaku ætlaði að skrifa undir nýjan samning við Everton en hætti við á síðustu stundu eftir að hafa fengið vúdú-skilaboð. Þetta fullyrti Farhad Moshiri, einn aðaleiganda Everton á hluthafafundi félagsins í gær.

BBC fjallar um málið en fullyrðing Moshiri er vægast sagt áhugaverð.

„Hann var með vúdú og fékk þau skilaboð að hann þurfti að ganga í raðir Chelsea,“ sagði Moshiri en sóknarmaðurinn ákvað að lokum að semja við Manchester United, sem keypti hann frá Everton á 75 milljónir punda.

Lukaku var nálægt því að ganga frá nýjum samningi við Everton í mars á síðasta ári og staðfesti Mino Raiola, umboðsmaður hans, það á sínum tíma.

„Við buðum honum betri samning en hann hefði fengið hjá Chelsea og mætti hann á Finch Farm til að skrifa undir samninginn,“ sagði Moshiri á fundinum í gær.

„Robert [Elstone, framkvæmdastjóri] var þarna og það var allt tilbúið. Það voru nokkrir blaðamenn fyrir utan,“ bætti hann við.

Lukaku mun þá hafa hringt í móður sína þegar hann greindi svo frá skilaboðunum undarlegu og hætti við allt saman.

„Þetta mál snerist ekki um peninga,“ sagði Moshiri. „Svo lengi sem ég verð meirihlutaeigandi í Everton munu fjármál engu máli skipta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×