Enski boltinn

Hetjan á móti Arsenal búinn að fá sinn hund og gaf honum auðvitað þetta nafn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Lichaj fagnar marki sínu á móti Arsenal.
Eric Lichaj fagnar marki sínu á móti Arsenal. Vísir/Getty
Stuðningsmenn Nottingham Forest gáfu ekkert eftir í baráttu sinni fyrir að hetja liðsins í bikarleiknum á móti Arsenal fengi ósk sína uppfyllta.

Varnarmaðurinn Eric Lichaj skoraði tvö mörk í 4-2 bikarsigri á Arsenal um síðustu helgi en mesta athygli vakti samkomulag hans við eiginkonuna sína.

Eric Lichaj hafði dreymt um að fá hund á heimilið en kona hans Kathryn tók það ekki í mál. Hún var þó tilbúin að lofa honum að segja já við hundi ef hann næði að skora þrennu.

Kathryn taldi sig vera nokkuð örugga um að þurfa ekki að efna það loforð enda er Eric varnarmaður og ekki beint líklegur til að skora þrennu.

Eric vantaði hinsvegar „aðeins“ eitt mark til að ná því um síðustu helgi og stuðningsmenn Nottingham Forest settu í kjölfarið mikla pressu á Kathryn að verða við ósk eiginmannsins.

Samfélagsmiðlar Kathryn fylltust meðal annars af hundamyndum og hún lét loksins undan pressunni.

Eric Lichaj birti stoltur mynd af sér með nýja hundinum á Twitter og sagði að hann væri búinn að gefa honum nafnið Gunner.

Nafnið hlýtur að vera bein skýrskotun í gælunafn leikmanna Arsenal sem eru kallaðir „Gunners“ eða Skytturnar. Það var nefnilega þessum leik á móti Arsenal að þakka að Gunner hleypur nú um gólfið á heimili þeirra Eric og Kathryn Lichaj.

Eric þakkaði jafnframt öllum fyrir það að hjálpa sér við að sannfæra Kathryn um að hleypa hundi inn á heimilið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×