Erlent

James Franco hafnar ásökunum um kynferðislega áreitni

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Franco hefur áður verið sakaður um ósæmilega hegðun í garð 17 ára stúlku.
Franco hefur áður verið sakaður um ósæmilega hegðun í garð 17 ára stúlku. Vísir/Getty

Leikarinn og leikstjórinn James Franco segir ásakanir á hendur honum um kynferðislega áreitni ekki réttar. Mikil umræða skapaðist um Franco í kjölfar Golden Globe verðlaunanna þar sem hann vann til verðlauna fyrir hlutverk sitt sem Tommy Wiseau í myndinni The Disaster Artist.



Mörgum þótti óviðeigandi að Franco væri með „Time‘s Up“ nælu til að styðja herferð kvenna um að kynferðisleg áreitni muni ekki lengur líðast á vinnustöðum, þá sérstaklega í skemmtanaiðnaðinum.



Leikkonan Ally Sheedy tók til Twitter og sagði að Franco væri skýrt dæmi um hvers vegna hún hafi ákveðið að hætta í kvikmynda og sjónvarpsiðnaðinum. Sheedy hefur síðan eytt tístum sínum um Franco en nokkur önnur standa enn.



Til dæmis frásögn Sarah Tither-Kaplan sem sagði að Franco hefði fyrir örfáum vikum sagt henni að nektaratriði sem hún hafi þurft að leika í í tveimur myndum Franco fyrir 100 dollara á dal hafi ekki verið misnotkun á aðstæðum vegna þess að hún hafi skrifað undir samning þess efnis.

Önnur kona, Violet Paley, segir að Franco hafi þrýst höfði sínu að getnaðarlim hans. Þá hafi hann einnig beðið vinkonu hennar að hitta sig á hótelherbergi þegar hún var 17 ára gömul. Þá hafði Franco verið sakaður um að gera hosur sínar grænar fyrir annarri 17 ára stúlku. Það vakti athygli fjölmiðla árið 2014 þegar Franco var 35 ára.

Franco ræddi þessar ásakanir í viðtali við Stephen Colbert í spjallþætti hins síðarnefnda. Þar sagðist hann ekki sjálfur hafa séð tístin þar sem hann er sakaður um ósæmilega hegðun en að honum hafi verið bent á þau. Hann segir þau ekki rétt og segist ekki vita hvers vegna Ally Sheedy sé honum reið, en þau unnu saman þegar Franco leikstýrði Sheedy í leikriti árið 2014.



„Ég hef ekki hugmynd um af hverju hún var reið,“ sagði Franco.



„Hinar, sjáðu til, ég er stoltur af því að taka ábyrgð á því sem ég geri. Ég verð að gera það til að viðhalda eigin geðheilsu. Ég geri það þegar ég veit að eitthvað er að eða að ég þarf að breyta einhverju. Ég er mjög meðvitaður um það.“



„Hlutirnir sem ég frétti að væru á Twitter eru ekki réttir, en ég styð fólk fullkomlega við að stíga fram og láta rödd sína heyrast því þessi hópur hefur verið raddlaus í svo langan tíma. Ég vil ekki þagga niður í þeim á neinn hátt. Þetta er að mínu mati af hinu góða og ég styð þetta.“



Franco átti að koma fram ásamt bróður sínum Dave Franco á viðburði á vegum The New York Times til að ræða kvikmyndina The Disaster Artist í dag en hætt var við viðburðinn eftir að umræða um athæfi Franco kom upp í vikunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×