Innlent

Forsetinn verður ekki á leik Íslands og Argentínu

Jakob Bjarnar skrifar
Forsetinn hefur verið einn helsti stuðnigsmaður liðsins en á ekki heimangengt sökum anna.
Forsetinn hefur verið einn helsti stuðnigsmaður liðsins en á ekki heimangengt sökum anna. visir/vilhelm
Guðni Th. Jóhannesson forseti íslenska lýðveldisins kemst því miður ekki til Rússlands á fyrsta leik karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu á HM, en hann hefur verið einn helsti stuðningsmaður liðsins.

„Forseti fylgist að sjálfsögðu með leik karlalandsliðsins í Rússlandi þann 16. júní - en héðan að heiman því hann á ekki heimangengt á leikinn sjálfan vegna anna,“ segir Örnólfur Thorsson ritari forseta í fyrirspurn Vísis.

Og, þannig er það. Eins og vart ætti að þurfa að hafa mörg orð um er forseti Íslands mikill áhugamaður um íþróttir hverskyns og hefur hann sýnt íþróttahreyfingunni margvíslegan stuðning. Ein stærsta stund íslenskrar íþróttasögu mun væntanlega renna upp þegar íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir í sinn fyrsta leik á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í sumar. Gegn stórveldinu Argentínu.  Nema, nú ber svo við að löndin etja kappi þann 16. júní.

Langan veg er að fara, til Rússlands, Moskvu nánar tiltekið, hvar leikurinn fer fram. Það setti strik í reikninginn hvað varðar forsetann og hans þéttriðnu dagskrá; hann hefur venju samkvæmt ýmsum embættisskyldum að gegna og hnöppum að hneppa á þjóðhátíðardeginum 17. júní. Hann mun því ekki vera „strákunum okkar“ til halds og trausts í þessum mikilvæga leik gegn Argentínu í Moskvu 16. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×