Handbolti

Rúnar: Búnir að horfa ógeðslega mikið á Svíana

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rúnar Kárason skoraði fimm mörk í dag
Rúnar Kárason skoraði fimm mörk í dag vísir/epa
„Svekkjandi í lokin að við skildum ekki sigla þessu heim með svona fimm mörkum, en sigurinn er fyrir öllu,“ voru fyrstu orð Rúnars Kárasonar eftir sigur Íslendinga á Svíum á Evrópumótinu í handbolta í Króatíu við Henry Birgi Gunnarsson.

Ísland vann tveggja marka sigur, 26-24, eftir að hafa komist tíu mörkum yfir í byrjun seinni hálfleiks.

„Virkilega gott að byrja svona sannfærandi í mótinu. Þessi byrjun hjá okkur var geggjuð og að fá Bjögga [Björgvin Pál Gústavsson] svona fáránlega sterkan og taka allt sem fór miður í vörninni.“

Björgvin Páll varði 15 skot í leiknum, þar af tvö víti, og var með 38 prósenta markvörslu.

„Mér fannst vörnin vera allt í lagi, geggjað að við höfum ná að stilla okkur svona vel saman í þennan mikilvæga leik,“ sagði Rúnar.

Íslenska liðið var ekki sannfærandi í síðustu æfingaleikjunum fyrir mótið gegn Þjóðverjum, en mættu vel tilbúnir í þennan leik.

„Við vorum búnir að horfa ógeðslega mikið á þá, var orðið drepleiðinlegt í lokin, en það margborgaði sig. Það kennir krökkunum heima að heimavinnan er mikilvæg. Leikplanið virkaði 100 prósent og var í rauninni bara agaleysi í seinni hálfleik og kannski farið að draga aðeins af Aroni [Pálmarssyni] sem var búinn að vera allt í öllu ásamt Óla [Guðmundssyni].“

„Þetta var orðið svolítið óþægilegt en þegar Janus [Daði Smárason] setur hann úr horninu og Arnór [Þór Gunnarsson] setti víti þá kom bara sigurvíman yfir,“ sagði sáttur Rúnar Kárason að leikslokum.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×