Enski boltinn

City vill ekki borga fyrir Sanchez │ Gæti endað hjá United

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hvað gerist? Sagan um Sanchez hefur verið endalaus síðustu mánuði
Hvað gerist? Sagan um Sanchez hefur verið endalaus síðustu mánuði vísir/getty

Forráðamenn Manchester City vilja ekki borga uppsett verð fyrir Alexis Sanchez og eru því tilbúnir til þess að missa mögulega af leikmanninum yfir til erkifjendanna í Manchester United.

Arsenal vill fá 35 milljónir punda fyrir Sanchez, auk þess sem umboðsmaður hans vill 5 milljónir, sem gerir heildarkostnaðinn fyrir City 40 milljónir, tvöfalt meira en liðið er reiðubúið að greiða.

Sanchez verður samningslaus í sumar og gæti því farið frítt. Manchester City ætlaði sér alltaf að bíða þar til í sumar, ef marka má heimildir fjölmiðla á Englandi, en eftir að Gabriel Jesus meiddist í desember var talið líklegt að City myndi ná sér í Sílebúann í janúarglugganum.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, sagði á blaðamannafundi í dag að nú væri útlit fyrir að Jesus gæti snúið til baka eftir 2-3 vikur, og því vill félagið ekki eyða 40 milljónum punda í leikmann sem gæti komið frítt í sumar.

Hins vegar bárust af því fregnir í gær að Manchester United hefði áhuga á að kaupa leikmanninn, og því gæti City misst af honum fari svo að United borgi fyrir hann nú í janúar.

Jose Mourinho vildi ekki gefa neitt út á blaðamannafundi sínum, en útilokaði þó ekki möguleikann á að fá Sanchez til United.

Sanchez sjálfur er sagður vilja fara til City, en hann vill einnig ólmur losna frá Lundúnaliðinu nú í janúar. Arsenal mun þó ekki selja leikmanninn nema hafa tryggt sér arftaka hans.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.