Erlent

Sér nú fyrir endann á langri stjórnarkreppu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Merkel og Schulz tókust í hendur á blaðamannafundinum.
Merkel og Schulz tókust í hendur á blaðamannafundinum. Nordicphotos/AFP

Kristilegir demókratar (CDU) og Jafnaðarmannaflokkurinn (SPD) í Þýskalandi kveðast nú bjartsýnir á að stjórnarmyndun takist en stjórnarkreppa hefur ríkt þar í landi í um þrjá mánuði. Flokkarnir greindu frá því í gær að eftir rúmlega 24 klukkustunda samfelldar viðræður hefði áætlun um formlegar stjórnarmyndunarviðræður verið samþykkt.

Angela Merkel, kanslari og formaður Kristilegra demókrata, og Martin Schulz, formaður Jafnaðarmannaflokksins, boðuðu til blaðamannafundar í gær þar sem þau sögðust bjartsýn á framhaldið. Boðuðu þau „nýtt upphaf“ í þýskum stjórnmálum og gáfu til kynna að styrkt samband við Frakka á sviði Evrópusambandsins væri forgangsatriði í utanríkismálum.

Gengið var til kosninga undir lok septembermánaðar og guldu bæði CDU og SPD afhroð. Töpuðu samtals 105 þingmönnum á meðan Frjálslyndir demókratar bættu við sig áttatíu og þjóðernishyggjuflokkurinn Valkostur fyrir Þýskaland (AfD) 94 þingmönnum. Sagði Schulz eftir kosningarnar að kjósendur hefðu sent þau skilaboð að hinu svokallaða stórbandalagi (þ. Große Koalition) CDU og SPD, sem störfuðu saman á síðasta kjörtímabili, hefði verið hafnað. Útilokaði Schulz því að SPD tæki þátt í ríkisstjórn á ný.

Þar sem ekkert annað tveggja flokka mynstur var mögulegt hófust viðræður um svokallað Jamaíkubandalag Frjálslyndra demókrata, Græningja og CDU. Nafnið vísar til einkennislita flokkanna sem eru þeir sömu og í jamaíska fánanum. Um var að ræða eina þriggja flokka mynstrið sem var í stöðunni í ljósi þess að SPD vildi ekki sæti í ríkisstjórn og AfD þykir ekki stjórntækur.

Upp úr þeim viðræðum slitnaði hins vegar og við tók lengsta stjórnarkreppa Þjóðverja frá því fyrir seinni heimsstyrjöld.

Á blaðamannafundi gærdagsins sagði Merkel að erfiðir ásteytingarsteinar hefðu komið upp í hinum nýju viðræðum við SPD.

Undir það tók Schulz og sagði viðræðurnar einkennast af mikilli togstreitu. „Við rifumst ansi harkalega.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.