Innlent

Veðurhorfur á landinu: Hver gráða skiptir máli

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það er betra að passa sig svo maður fljúgi ekki á hausinn.
Það er betra að passa sig svo maður fljúgi ekki á hausinn. VÍSIR/STEFÁN

Búast má við strekkings sunnan átt með éljum sunnan og vestantil á landinu í dag. Það hvessir með kvöldinu og reikna má með að úrkoma verði nær samfelld í dag.

„Þar sem hitastig verður nálægt frostmarki, þá mun hver gráða til eða frá skipta miklu máli hvort úrkoman verði í formi rigningar eða slyddu eða slyddu og snjókomu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Líklegt er að nær ströndinni ætti úrkoman að vera í formi rigningar en breytast í slyddu eða snjókomu eftir því sem innar í landið er farið.

Fljótlega eftir miðnætti snýst síðan í hvassa suðvestanátt, kólnar og fellur úrkoman sem snjóél.

„Útlit er fyrir að það hvessi enn frekar í éljunum og skyggni verði mjög takmarkað sem aftur gæti valdið staðbundnum truflunum í umferðinni,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Veðurhorfur á landinu
Sunnan og suðvestan 10-18 m/s og él eða skúrir, en léttskýjað NA-lands. Rigning eða slydda á S- og V-verðu landinu í kvöld, en snjókoma í uppsveitum. Hiti 0 til 5 stig.

Snýst í suðvestan 13-23 með éljum eftir miðnætti, fyrst um landið vestanvert. Heldur hægari og léttir víða til NA- og A-lands á morgun. Vægt frost víðast hvar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Gengur í suðvestan 13-20 með dimmum éljum, hvassast við SV-ströndina, en léttir til eystra. Kólnandi veður, frost víða 1 til 6 stig um kvöldið, en frostlaust syðst.

Á mánudag:

Snýst í norðanátt, víða 10-18 m/s, en lengst af mun hægari breytileg átt austantil. Éljagangur, en rofar smám saman til á S-verðu landinu. Frost 1 til 12 stig, mildast syðst.
Á þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag og föstudag:

Norðlægar áttir og snjókoma eða él á norðanverðu landinu, en úrkomulítið syðra. Áfram kalt í veðri, en minnkandi frost undir helgi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.