Handbolti

Aron: Voru ekki betri en við fannst mér

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron Pálmarsson, stórskytta Íslands, segir að það fari rosalega mikið í taugarnar á sér hvernig íslenska liðinu tókst ekki að klára sóknir sínar fyrstu tíu mínúturnar í síðari hálfleik. Hann segist þó ánægður með spilamennsku, að mestu leyti.

„Fyrstu tíu mínúturnar voru svekkjandi. Við spilum mjög vel, en náum ekki að klára sóknirnar. Okkur er refsað fyrir það,” sagði Aron aðspurður um hvað hafi farið úrskeiðis í síðari hálfleik.

„Við náðum að opna þá og koma okkur í færi, en náum ekki að klára með marki. Við vorum að fá góða sénsa og það er rosalega svekkjandi.”

Fyrri hálfleikurinn var ansi góður, en Aron segir ekki að íslenska liðinu hafi liðið eitthvað alltof vel í hálfleik.

Umfjöllun:Króatía - Ísland 29-22 | Tap gegn Króatíu eftir góðan fyrri hálfleik

„Tilfinningin var auðvitað góð í hálfleik, en samt sem áður bara á pari við það sem við ætluðum að gera. Tapa með einu í hálfleik, jafn leikur og þetta var í fínu standi, þess vegna er þetta rosalega svekkjandi.”

„Við spiluðum áfram vel, en vorum ekki að ná að klára færin. Það er ástæða fyrir því að þeir ná þessu góða forskoti og halda því bara út allan leikinn. Þeir eru bestir í því.”

Dómararnir voru oft á tíðum nokkuð skrautlegir, en Aron segir að það hafi verið vitað enda ellefu þúsund Króatar í höllinni og þeir á heimavelli.

„Auðvitað fá þeir 50-50 boltana til sín og það vissum við fyrir leikinn. Ég gæti farið út í þá sálma og það var vitað. Maður pirraði sig einu sinni eða tvisvar, en ég er ekki að fara kenna því um.”

Hvað pirrar Aron mest í leikslok?

„Það eru þessar tíu mínútur í síðari hálfleik þar sem við spilum vel, en erum ekki að ná að klára; síðasta sendingin eða skot. Það er mest svekkjandi af því að þeir voru ekki betri en við fannst mér. Að þeir hafi náð þessu forskoti þar fer í mig,” sagði Aron að lokum.


Tengdar fréttir

Geir: Fannst dómgæslan halla á okkur

Geir Sveinsson, þjálfari Íslands, segir að það hafi margt farið í gegnum kollinn á sér í lok leiksins gegn Króatíu sem tapaðist á EM í Split í kvöld. Hann segir að dómgæslan hafi stundum verið furðuleg, en vill þó fá að skoða hana aftur og betur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×