Handbolti

Gunnar: Öðruvísi tilfinning að sitja rólegur í stúkunni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka í Olís-deild karla, er mættur til Króatíu til að fylgjast með strákunum okkar í handboltalandsliðinu.

Gunnar hefur frá árinu 2003 verið í þjálfarateymi landsliðsins, en hann er það ekki lengur. Nú er hann hinu megin við borðið og nýtur þess.

„Það er bara ótrúlega ljúft, en auðvitað er þetta öðruvísi tilfinning að sitja rólegur í stúkunni,” sagði Gunnar í samtali við Henry Birgi Gunnarsson í Split.

„Það er líka ljúft að fara upp á hótel eftir leikina og slaka á og vera ekki í þessari vinnu. Þetta er auðvitað öðruvísi,” sem segist láta þjálfarateymið algjörlega í friði.

„Ég leyfi þeim að vera í friði og treysti þeim fullkomnlega fyrir þessu verkefni,” sagði Gunnar glottandi.

Næsti leikur er gegn Serbum á morgun og Gunnar segir að það verði snúið verkefni þrátt fyrir að þeir hafi ekki unnið í sjö leikjum í röð.

„Þetta verður erfitt. Þeir eru upp við vegg. Við sáum þennan leik sem úrslitaleik í riðlinum og auðvitað smá snúið að við megum tapa með einhverjum mörkum, en mikilvægt að fókusa á að við verðum að vinna.”

„Þeir eru með marga góða einstaklinga þó að það vanti fullt af mönnum. Þeir eru með mjög góða leikmenn innan borðs. Þeim hefur gengið mjög illa.”

„Töpuðu fimm æfingarleikjum fyrir mót og nú þessum tveimur leikum á mótinu. Sjö leikir í röð án sigurs, svo er það kannski ekki mikið sjálfstraust, en engu að síður erfitt verkefni,” sagði Gunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×