Körfubolti

Tapsárir leikmenn Houston ruddust inn í klefa LA Clippers eftir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Los Angeles Clippers stráðu salt í sárin.
Leikmenn Los Angeles Clippers stráðu salt í sárin. Vísir/Getty
Það voru mikil læti eftir leik Los Angeles Clippers og Houston Rockets í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en Clippers vann leikinn 113-102.

Í liði Houston Rockets var Chris Paul sem lék áður með liði Los Angeles Clippers. Paul var einn fjögurra leikmanna Houston liðsins sem ruddust inn í búningsklefa Clippers eftir leikinn.

Chris Paul þekkti bakdyraleið inn í klefann en með honum í för voru þeir Trevor Ariza, James Harden og Gerald Green. Doc Rivers, þjálfari Los Angeles Clippers, sagði fjölmiðlamönnum óbeint frá „innrás“ leikmanna Houston á blaðamannafundi eftir leikinn.

Það höfðu orðið mikil læti í loksins þar sem pirraðir og tapsárir liðsmenn Houston Rockets voru mjög ósáttir með köll og fagnaðarlæti leikmanna Clippers.







Blake Griffin átti stórleik með Los Angeles Clippers en hann var rekinn í sturtu áður en leikurinn kláraðist eftir að hafa lent saman við Trevor Ariza.

Austin Rivers, sem var í jakkafötum á bekknum hjá Clippers, lét líka leikmenn Houston heyra það á lokamínútum sem fór mjög illa í Chris Paul, James Harden og félaga. James Harden missti þarna af sjöunda leiknum í röð vegna meiðsla.

Leikmenn Houston sem komu inn í klefa Clippers vildu augljóst gera upp málin við þá Blake Griffin og Austin Rivers. Það kom ekki til handalögmála á milli leikmanan og starfsmenn liðanna sáu til þess að Houston mennirnir fóru aftur í sinn klefa.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×