Erlent

Hjón ákærð fyrir pyndingar og illa meðferð á börnum sínum

Heimir Már Pétursson skrifar
Hjón í Kaliforníu hafa verið ákærð fyrir pyndingar á þrettán börnum sínum en þau voru handtekin á sunnudag eftir að einni dóttur þeirra tókst að losna úr prísundinni og kalla til lögreglu.

Þegar lögregla kom að heimili hjónanna fundu þau börn hjónanna á aldrinum tveggja til tuttugu og níu ár. Þau voru öll vannærð og höfðu sum þeirra verið hlekkjuð við rúm sín.

„Á þeim tímum sem við lifum er leitt að sjá þetta. Það er átakanlegt fyrir starfsfólkið, það er bara ótrúlegt að sjá þetta,“ segir Mark Uffer framkvæmdastjóri heilsugæslunnar sem tók á móti börnunum. Þeim sé nú sinnt af mikilli nærgætni.

Hjónin, David Allen Turpin 57 ára og Lousie Anna Turpin 49 ára bjuggu í bænum Perris rúmlega hundrað kílómetra austur af Los Angeles. Þau höfðu skráð dagskóla í húsi sínu og heimilisföðurinn var skráður skólastjóri. Það fór hins vegar mjög lítið fyrir fólkinu í húsinu að sögn Kimberly Milligan einum nágranna hjónanna.

„Þetta var svona fólk sem maður kynnist lítið. Þau voru mjög mikið út af fyrir sig og á vissan hátt eins og klíka,“ segir Milligan.

Það var 17 ára dóttir hjónanna sem slapp út með farsíma foreldra sinna og lét lögreglu vita. Foreldrarnir hafa verið ákærðir fyrir pyndingar og fyrir að stefna lífi barna í hættu.

„Maður sá krakkana stundum koma út úr bílnum og fara beint inn í húsið, það var allt og sumt. Ég sá krakkana aldrei eina. Foreldrarnir voru alltaf nálægir,“ segir Milligan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×