Handbolti

Skutlumark Guðjóns Vals vekur athygli í Bandaríkjunum | Komst í SportsCenter á ESPN

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Vísir/Ernir
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði eftirminnilegt mark í leiknum á móti Serbíu í lokaleik íslenska handboltalandsliðsins á EM í Króatíu en markið dugði því miður ekki íslenska landsliðinu til að komast áfram upp úr riðlinum.

Tilþrif Guðjóns Vals komu honum aftur á móti í tilþrifapakkann í SportsCenter á ESPN íþróttasjónvarpsstöðinni vinsælu í Bandaríkjunum.

Guðjón Valur reyndi að vippa boltanum yfir markvörðinn úr vítakasti en boltinn fór í slána.. Frákastið fór ekki langt út í teiginn en það stoppaði ekki hinn 38 ára gamla Íslending í því að stökkva á eftir boltanum.

Guðjón Valur er frábær íþróttamaður og enn með mikinn stökkkraft eins og hann sýndi þarna því íslenski landsliðsfyrirliðinn náði að slá boltann í mark Serbana. Markið má sjá hér fyrir neðan af Twittersíðu SportsCenter á ESPN.







Guðjón Valur jafnaði þarna metin í 26-26 en þetta reyndist vera síðasta mark íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í Króatíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×