Enski boltinn

Conte ósáttur með myndbandsdómara: Willian átti að fá víti

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Antonio Conte á hliðarlínunni á Stamford Bridge
Antonio Conte á hliðarlínunni á Stamford Bridge vísir/getty
Knattspyrnustjóri Chelsea, Antonio Conte, var ekki sáttur með notkun myndbandsdómara í leik Chelsea og Norwich í ensku bikarkeppninni í gærkvöld.

Chelsea vann Norwich í vítaspyrnukeppni eftir 1-1 jafntefli og framlengingu þar sem tveir leikmenn Chelsea fengu sitt seinna gula spjald og voru reknir af velli.

Pedro, Alvaro Morata og Willian fengu allir gult spjald fyrir leikaraskap inni í teig andstæðinganna. Þeir tveir fyrrnefndu fengu svo aftur gul spjöld í framlengingunni og þurftu að fara snemma í sturtu. Conte var mjög ósáttur með þessa dóma, og þá sérstaklega spjaldið á Willian sem hann taldi vera klára vítaspyrnu, en í leiknum sjálfum var mjög óljóst hvort Graham Scott, dómari leiksins, hafi ráðfært sig við myndbandsdómarann í eyranu.

„Það verður að bæta þetta nýja kerfi ef við ætlum að nota það,“ sagði Conte eftir leikinn í gær.

„Dómarinn var fljótur að veifa gula spjaldinu, sem þýðir að hann var ekki í vafa. Ef við viljum bæta þetta nýja kerfi þá verður dómarinn að bíða og athuga hvort manneskjan sem situr og horfir á leikin er viss.“

„Sá sem var að horfa á leikinn hlýtur að hafa verið í vafa því það er sparkað í Willian og þá þarf hann að hringja í dómarann og segja honum að þetta sé vafaatriði, kannski væri best að hann færi og skoðaði atvikið,“ sagði Antonio Conte.

Chelsea mætir Newcastle í fjórðu umferð bikarkeppninnar sunnudaginn 28. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×