Fótbolti

Ragnar á leið til íslendingaliðsins Rostov

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Ragnar á landsliðsæfingu.
Ragnar á landsliðsæfingu. Vísir
Lausn virðist vera að nást á málum íslenska landsliðsmannsins Ragnars Sigurðssonar. Samkvæmt rússneska miðlinum 8news er Ragnar á leið til rússneska úrvalsdeildarliðsins Rostov, þar sem hann verður á láni frá Fulham út leiktíðina.

Ragnar er öllu kunnugur í Rússlandi en hann var einn af betri varnarmönnum deildarinnar tímabilin 2014-2016 þegar hann lék fyrir Krasnodar. Þá hefur hann verið á láni hjá Rubin Kazan frá því síðastliðið vor. Mikil óreiða er í herbúðum Rubin Kazan og hafa leikmenn ekki fengið greidd laun síðustu mánuði.

Ragnar fær væntanlega góðar móttökur í Rostov, en þar hittir hann fyrir samherja sína í íslenska landsliðinu, þá Sverri Inga Ingason og Björn Bergmann Sigurðarson, sem er nýgenginn til liðs við félagið frá norska úrvalsdeildarliðinu Molde.

Rostov er í 10. sæti af 16 liðum í rússnesku úrvalsdeildinni þegar tíu umferðir eru eftir af tímabilinu. Deildin hefst ekki aftur fyrr en í byrjun mars þegar að tæplega þriggja mánaða vetrarfríi lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×