Erlent

Læknar „gríðarlega spenntir“ fyrir nýrri aðferð við krabbameinsleit

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísindamenn binda vonir við blóðprufuaðferðina.
Vísindamenn binda vonir við blóðprufuaðferðina. Vísir/Getty
Vísindamenn hafa tekið stórt skref í áttina að þróa aðferð til að greina krabbamein í blóðprufu. Skrefið er talið til töluverðra tíðinda enda hafa vísindamenn lengi gert sér vonir um að aðferðin líti dagsins ljós einn daginn.

Hópar lækna við hinn virta John Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum hafa nú um nokkurt skeið prófað aðferð sem greinir átta algengar tegundir krabbameina úr blóðsýnum.

Framtíðarsýnin er sú að fólk geti farið árlega í blóðprufu þar sem skimað yrði fyrir krabbameinum og þannig væri hægt að greina meinið mun fyrr en nú. Þannig megi auka líkurnar á því að meðferð skili árangri.

Þúsund sjúklingar með margvísleg krabbamein tóku þátt í tilrauninni og í sjötíu prósentum tilvika dugði prófið til að greina meinið. Aðferðin er nú í prófun hjá fólki sem ekki hefur greinst með krabbamein og binda læknar miklar vonir við að innan tíðar verði hún eitt af þeim tólum sem læknar hafa til að berjast gegn þessum vágesti.

Haft er eftir breskum sérfræðingum að þeir séu „gríðarlega spenntir“ fyrir þessari aðferð og að hún verði vonandi til þess að „fækka krabbameinstengdum dauðsföllum umtalsvert.“

Í þessu samhengi er krabbamein í brisi sérstaklega nefnt til sögunnar. Briskrabbamein greinist alla jafna seint og verður það til þess að um 80% sjúklinga deyja sama ár og þeir greinast. Ef fyrrnefndar blóðprufur skila tilætluðum árangri segja læknarnir sem breska ríkisútvarpið ræðir við að lífslíkur þessara sjúklinga ættu að stóraukast. Hægt væri að finna krabbameinið fyrr og jafnvel fjarlægja það með skurðaaðgerð áður en því tekst að valda óafturkræfum skaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×