Fótbolti

Chelsea gæti verið á leið í bann

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Chelsea er ríkjandi Englandsmeistari
Chelsea er ríkjandi Englandsmeistari vísir/getty
Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hefur sakað Chelsea um að brjóta reglur varðandi kaup á leikmönnum undir 18 ára aldri eftir að hafa rannsakað félagsskipti félagsins.

Í september tilkynnti FIFA að sambandið hyggðist hefja rannsókn á mögulegum brotum Chelsea á félagsskiptareglum varðandi unga leikmenn og nú hefur félagið verið ákært vegna kaupa á 25 leikmönnum undir 18 ára.

Barcelona, Real Madrid og Atletico Madrid hafa öll verið dæmd fyrir slík brot og hlotið félagsskiptabann sem spannaði tvo félagsskiptaglugga. Slítk bann gæti verið yfirvofandi hjá Chelsea verði félagið fundið sekt.

Athygli FIFA var vakin þegar Bertrand Traoré var keyptur til Chelsea þann 1. janúar 2014, fyrsta dag félagsskiptaglugga eftir 18 ára afmæli hans. Það eru hins vegar til myndir af Traoré að spila fyrir félagið í október 2011, þegar hann var 16 ára.

Félög mega ekki festa kaup á erlendum leikmönnum undir 18 ára aldri nema foreldrar þeirra hafi sest að í landi félagsins án þess að það komi fótbolta við, eða að félagið og leikmaðurinn séu staðsett innan við 50 kílómetra frá landamærum.

Eina undantekning þessara reglu er varðandi leikmenn á aldrinum 16-18 ára innan Evrópska efnahagssambandsins eða Evrópusambandsins. Kaupin á Traoré, sem kemur frá Burkina Faso, eru því ekki talin uppfylla nein af skilirðum undanþáganna.

Félagið gaf frá sér tilkynningu þar sem það sagðist fara eftir öllum reglum FIFA þegar kemur að því að fá til sín leikmenn.

FIFA hefur beðið Chelsea og enska knattspyrnusambandið um gögn varðandi þessa 25 leikmenn, og sú tala gæti hækkað komi fleiri mál upp í rannsóknunum. FIFA segir það ekki skipta máli hvort brotin séu 2 eða 50, þau séu oftast svo alvarleg að refsingin sé nærri alltaf bann, og þá helst yfir að minnsta kosti tvo félagsskiptaglugga því auðvelt sé að hagræða kaupum í kringum eins glugga bann.

Barcelona var dæmt fyrir 31 brot, Real Madrid var upphaflega rannsakað á 70 brotum en eftir áfrýjun voru sakfelldir fyrir 37 og fengu bannið minnkað í bara einn glugga vegna þess að þeirra brot voru ekki eins alvarleg. Atletico var dæmt fyrir 153 brot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×