Fótbolti

Van Persie snýr aftur á heimaslóðir

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Feyenoord tilkynnti í kvöld að félagið hefði samið við hollenska sóknarmanninn Robin Van Persie en hann snýr því aftur til félagsins frá Fenerbahce eftir fjórtán ára fjarveru.

Van Persie sem er frá Rotterdam kom upp úr unglingastarfi Feyenoord og lék með félaginu í þrjú ár áður en hann gekk til liðs við Arsenal á Englandi.

Lék hann í ellefu ár á Englandi þar sem hann varð enskur meistari með Manchester United ásamt því að vinna enska bikarinn en hann hefur leikið undanfarin ár í Tyrklandi.

Eftir að hafa verið í stóru hlutverki fyrstu tvö ár sín í Tyrklandi kom hann lítið við sögu á þessu tímabili en hann lék á sínum tíma 102 leiki fyrir hollenska landsliðið og skoraði í þeim 50 mörk.

Fylgir hann með því í fótspor landa síns, Dirk Kuyt sem sneri aftur til Feyenoord, einnig frá Fenerbahce, árið 2015. Með Kuyt innanborðs varð Feyenoord hollenskur meistari í fyrsta sinn í átján ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×