Enski boltinn

Upphitun: Ná Jóhann Berg og félagar aftur að stríða Manchester United? | Myndband

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Alls fara átta leikir fram í ensku úrvalsdeildinni í dag en þar ber hæst að nefna leik Burnley og Manchester United á Turf Moor.

Burnley var aðeins nokkrum mínútum frá sigri á Old Trafford þegar liðin mættust á dögunum en Jesse Lingard bjargaði United með marki í uppbótartíma.

Síðan þá hefur Burnley aðeins fengið eitt stig í þremur leikjum og aðeins skorað eitt mark en þeir taka á móti Manchester United sem hefur verið á góðu skriði.

Í hádeginu tekur Brighton á móti Chelsea en heimamenn hafa aðeins unnið einn af síðustu tólf leikjum. Chelsea hefur gengið bölvanlega fyrir framan markið en Chelsea hefur aðeins skorað eitt í síðustu fjórum.

Lærisveinar Antonio Conte sluppu með skrekkinn í vítakeppni gegn Norwich í vikunni en Pedro og Alvaro Morata eru báðir í banni í dag eftir að hafa fengið rauð spjöld í þeim leik.

Arsenal tekur á móti Crystal Palace í Lundúnarslag og verða að teljast líklegri aðilinn en líklegt er að Alexis Sanchez taki ekkert þátt í leiknum á meðan gengið er frá félagsskiptum hans til Manchester United.

Gylfi Þór Sigurðsson verður væntanlega í eldlínuni er Everton tekur á móti West Brom á heimavelli en líklega fær Theo Walcott fyrstu mínútur sínar í treyju Everton eftir vistaskipti frá Arsenal á dögunum.

Þá tekur Leicester á móti Watford, West Ham mætir Bournemouth á heimavelli og Stoke mætir Huddersfield á heimavelli í fyrsta leik sínum undir stjórn Paul Lambert.

Í lokaleik dagsins tekur svo Manchester City á móti nýliðum Newcastle á heimavelli eftir fyrsta tap vetrarins á dögunum gegn Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×