Innlent

Lognið kveður

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/Anton

Nú sér fyrir endann á logninu á undan storminum því með morgninum fer að hvessa og tekur gul viðvörun gildi undir hádegi. Hún mun gilda fyrir Suður- og Suðausturland - eða allt frá Reykjanesi austur á Djúpavog.

Sums staðar getur orðið éljagangur, eins og til dæmis á Reynisfjalli við Vík í Mýrdal. Einna hvassast verður við sunnanverða Mýrdals- og Eyjafjallajökla, eða allt upp í 35 metra á sekúndu í hviðum, sem Veðurstofan segir að sé varasamt fyrir bíla sem taka á sig mikinn vind.

Hægari vindur verður í öðrum landshlutum og jafnvel léttskýjað og svo á að fara að draga úr vindi um miðjan dag á morgun. Frostið verður víða 0 til 5 stig í dag, „sem er hlýrra en verið hefur,“ eins og segir á vef Veðurstofunnar.

Þá verður svipað munstur veðrakerfa næstu daga; lágþrýstingur suður af landinu, en hár þrýstingur norðuraf. Hann blæs því áfram af austri, hvasst með suðurströndinni, en skaplegra annars staðar. Það er því gert ráð fyrir lítilsháttar él um landið austanvert, en bjartviðri vestantil. Áfram verður hiti neðan frostmarks.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Norðaustan og austan 5-13 m/s, en 13-18 með suðurströndinni. Dálítil él á Suðaustur- og Austurlandi, annars víða léttskýjað. Frost 0 til 8 stig.

Á fimmtudag:
Austan 8-15, en 15-23 syðst á landinu og við Öræfajökul. Él um landið austanvert, en bjartviðri vestantil. Frost 0 til 7 stig, en rétt ofan frostmarks við suðurströndina.

Á föstudag:
Minnkandi norðaustanátt og él austanlands í fyrstu, en hæg breytileg átt og léttskýjað víða um land þegar líður á daginn. Harðnandi frost.

Á laugardag:
Vestlæg eða breytileg átt og snjókoma eða slydda með köflum, en úrkomulaust austanlands. Hlýnandi veður, hiti kringum frostmark síðdegis.

Á sunnudag og mánudag:
Útlit fyrir stífa sunnanátt með rigningu eða slyddu, en úrkomulítið á Norður- og Austurlandi. Hiti 1 til 6 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.