Handbolti

Dagur var með allt japanska landsliðið í gamlárspartíi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Dsgur á blaðamannafundinum í dag.
Dsgur á blaðamannafundinum í dag. vísir/stefán
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japan, verður með lið sitt í Laugardalshöllinni annað kvöld þar sem það spilar vináttulandsleik gegn Íslandi.

Þetta er síðasti leikur íslenska liðsins hér á Íslandi áður en það heldur á HM með millilendingu í Þýskalandi þar sem bíða tveir leikir gegn Þjóðverjum. Fyrsti leikur Íslands á EM er gegn Svíum þann 12. janúar.

„Það er alltaf gaman að spila gegn Íslandi og þetta er þriðja landsliðið sem ég kem með til Íslands. Við vitum að það verður á brattann að sækja og bara spennandi að takast á við það. Við ætlum að standa í lappirnar á móti sterku liði,“ segir Dagur léttur á blaðamannafundi sem HSÍ hélt í dag.

Japanska liðið kom til Íslands 30. desember en hafði verið í Póllandi þar á undan og spilað vináttulandsleiki við Hvít-Rússa og Barein.

„Áramótateiti landsliðsins var haldið heima hjá mér þar sem var 27 manna sendisveit mætt í mat ásamt fjölskyldunni. Það var boðið upp á hrátt hvalkjöt og það féll heldur betur vel í kramið,“ segir Dagur brosmildur og augljóslega ánægður með líklega stærsta matarboð sem hann hefur haldið heima hjá sér.

Japanska liðið tapaði naumlega gegn Hvít-Rússum í Póllandi en steinlá gegn Barein sem Guðmundur Guðmundsson þjálfar. Við hverju má búast í leiknum gegn Íslandi á morgun?

„Við stöndum í lappirnar allan leikinn. Við brotnuðum algjörlega í þessum leik á móti Barein. Það kemur ekki fyrir aftur. Gummi las okkur eins og opna bók en ég á aftur leik gegn honum 13. janúar og þá verð ég búinn að spýta í lófana,“ segir Dagur en var hann að gefa Guðmundi falskar vonir í þeim leik?

„Þetta er það lengsta sem ég hef gengið í því að fá upp vanmat hjá andstæðingum mínum,“ segir þjálfarinn sposkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×