Handbolti

Dagur var með allt japanska landsliðið í gamlárspartíi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Dsgur á blaðamannafundinum í dag.
Dsgur á blaðamannafundinum í dag. vísir/stefán

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japan, verður með lið sitt í Laugardalshöllinni annað kvöld þar sem það spilar vináttulandsleik gegn Íslandi.

Þetta er síðasti leikur íslenska liðsins hér á Íslandi áður en það heldur á HM með millilendingu í Þýskalandi þar sem bíða tveir leikir gegn Þjóðverjum. Fyrsti leikur Íslands á EM er gegn Svíum þann 12. janúar.

„Það er alltaf gaman að spila gegn Íslandi og þetta er þriðja landsliðið sem ég kem með til Íslands. Við vitum að það verður á brattann að sækja og bara spennandi að takast á við það. Við ætlum að standa í lappirnar á móti sterku liði,“ segir Dagur léttur á blaðamannafundi sem HSÍ hélt í dag.

Japanska liðið kom til Íslands 30. desember en hafði verið í Póllandi þar á undan og spilað vináttulandsleiki við Hvít-Rússa og Barein.

„Áramótateiti landsliðsins var haldið heima hjá mér þar sem var 27 manna sendisveit mætt í mat ásamt fjölskyldunni. Það var boðið upp á hrátt hvalkjöt og það féll heldur betur vel í kramið,“ segir Dagur brosmildur og augljóslega ánægður með líklega stærsta matarboð sem hann hefur haldið heima hjá sér.

Japanska liðið tapaði naumlega gegn Hvít-Rússum í Póllandi en steinlá gegn Barein sem Guðmundur Guðmundsson þjálfar. Við hverju má búast í leiknum gegn Íslandi á morgun?

„Við stöndum í lappirnar allan leikinn. Við brotnuðum algjörlega í þessum leik á móti Barein. Það kemur ekki fyrir aftur. Gummi las okkur eins og opna bók en ég á aftur leik gegn honum 13. janúar og þá verð ég búinn að spýta í lófana,“ segir Dagur en var hann að gefa Guðmundi falskar vonir í þeim leik?

„Þetta er það lengsta sem ég hef gengið í því að fá upp vanmat hjá andstæðingum mínum,“ segir þjálfarinn sposkur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.