Lífið

Baráttan við Satan og endurkoma Krists

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Gavin Anthony, formaður Kirkju sjöunda dags aðventista á Íslandi, er breskur. Aðventistar leggja áherslu á heilsusamlegt mataræði og líferni. Hugur, sál og líkami er ein heild.
Gavin Anthony, formaður Kirkju sjöunda dags aðventista á Íslandi, er breskur. Aðventistar leggja áherslu á heilsusamlegt mataræði og líferni. Hugur, sál og líkami er ein heild. Visir/Ernir
Í Kirkju sjöunda dags aðventista eru um fimm hundruð manns. Þrátt fyrir smæðina rekur kirkjan sex söfnuði, á Akureyri, í Hafnarfirði, í Reykjanesbæ, í Reykjavík, á Selfossi og í Vestmannaeyjum. Aðventistakirkjan rekur sinn eigin skóla, Suðurhlíðarskóla, sem er þó opinn börnum úr öðrum trúfélögum.



Deilan mikla

Sjöunda dags aðventistar líta á Biblíuna sem einu trúarjátningu sína. Eins og í lútherstrú trúa þeir því að Guð sé skapari alls, að Jesús Kristur hafi dáið fyrir syndir mannsins og að hann hafi verið reistur upp frá dauðum. Þeir trúa því líka að Jesús muni koma aftur til að frelsa mannkynið. Mannkynið telja þeir statt mitt í átökum milli Krists og Satans um yfirráð yfir alheiminum.



Endurkoman er von safnaðarins og hámark fagnaðarboðskaparins. Þegar hann kemur aftur trúa aðventistar því að hinir réttlátu sem dánir eru rísi upp og hinir ranglátu muni deyja.



Á hinni nýju jörð muni Guð búa með hinum réttlátu og syndin verði ekki framar til. Aðventistar halda hjónaband manns og konu í miklum heiðri og hvíldardaginn halda þeir á laugardögum. Meðlimir eiga helst að lifa án tóbaks, áfengis og annarra vímuefna og ekki að neyta óhreinnar fæðu. Þeir eru hvattir til að neyta mestmegnis jurtafæðu þar sem það er mögulegt og eiga ekki að borða svínakjöt.



Hundrað ára saga á Íslandi

Gavin Anthony, formaður Kirkju sjöunda dags aðventista á Íslandi, er frá Bretlandi. Hann er nýtekinn við formennsku og giftur íslenskri konu, Þorbjörgu Ástu Þorbjarnardóttur, og þau eiga tvö börn, sjö og níu ára gömul. Hann er nýkominn úr hádegisgöngutúrnum þegar hann sest niður með blaðamanni til að veita innsýn í áherslur kirkjunnar sem á sér rúmlega hundrað ára sögu hér á landi.



Svíinn David Östlund kom til Íslands til að boða trú aðventista árið 1897. Hann stofnaði söfnuð sjöunda dags aðventista hér á landi 1906. Margt merkilegt er við starfsemi aðventista frá þessum tíma.



„Hann gaf út blaðið Frækorn sem kom út vikulega í stóru upplagi,“ segir Gavin frá en upplagið var stærst allra dagblaða hér á landi í nokkur ár eða um 4.500 eintök.



„Aðventistar tóku virkan þátt í samfélaginu hér. Með kirkjustarfi og aðstoð til fátækra, þá sérstaklega fyrir jólin,“ segir Gavin og vísar í starfsemi líknarfélagsins Alfa sem hefur starfað frá árinu 1924. Í félaginu störfuðu helst konur og margir Íslendingar sem áttu um sárt að binda nutu góðvildar þeirra.



„Við erum tæplega fimm hundruð í söfnuðinum. Við fórum í gegnum skjölin nýverið. Það eru líklega fleiri sem eru aðventistar en eru ekki skráðir. Flestir safnaðarmeðlimir eru Íslendingar, það eru þó nokkrir innflytjendur. Nokkrir eru frá Brasilíu, hér er afrísk fjölskylda sem er hér við nám og nokkrir frá Austur-Evrópu.“



Kynferðisbrot Karls Vignis

Kynferðisbrot Karls Vignis Þorsteinssonar skóku söfnuðinn um aldamótin. Hann var rekinn úr söfnuðinum þegar upp komst um brot hans en söfnuðurinn brást hins vegar lagalegri tilkynningaskyldu sinni. Viðurkenndi það og baðst afsökunar. Karl Vignir gekk laus þar til brot hans voru gerð opinber í Kastljósi meira en áratug seinna. Í dag fylgir söfnuðurinn ströngum starfsreglum til varnar gegn ofbeldi og misnotkun á börnum og unglingum að sögn Gavins.



„Kirkjan hefur sett sér starfsreglur um aðgerðir til varnar gegn ofbeldi og misnotkun á börnum og unglingum. Við tökum mjög alvarlega allar tilkynningar um ofbeldi. Fyrsta viðbragð er að vernda barnið. Fyrst og fremst er hlutverk okkar að vernda börn gegn ofbeldi í allri dagskrá kirkjunnar. Komi svona mál upp þá er fyrsta skylda prestsins að sinna þörfum barnsins og styðja það og fjölskyldu þess,“ segir Gavin.



Í starfsreglunum lýsir kirkjan yfir vanþóknun á hvers kyns líkamlegri, kynferðislegri eða andlegri misnotkun eða ofbeldi innan kirkjunnar og utan. Í reglunum heitir kirkjan því einnig að hún tilkynni allar staðhæfingar barna yngri en átján ára um hvers kyns ofbeldi og muni starfa með yfirvöldum og öðrum sérfræðingum til að bera kennsl á gerandann og til að vernda börnin. Þá vilji kirkjan hálpa þolendum kynferðisofbeldis.



Sá sem brýtur á barni á ekki heima í söfnuðinum lengur,“ segir Gavin. „Hann á skilið refsingu lögum samkvæmt. Guð getur fyrirgefið öll brot, en það er mitt hlutverk og fyrsta skylda að vernda barnið og því fær sá sem brýtur á barni ekki að taka þátt í safnaðarstarfi,“ segir Gavin og segir mikilvægt að huga að því að það sé ekki hægt að koma í veg fyrir kynferðisbrot í samfélaginu. En það sé skylda að reyna það. „Við getum ekki komið í veg fyrir það vegna þess að maðurinn hefur frjálsan vilja en við getum sinnt skyldu okkar að vernda börn, þegja ekki, bregðast við.“



Í reglum kirkjunnar eru skýr tilmæli um viðbrögð þegar barn tilkynnir um misnotkun. Barninu skuli trúað undanbragðalaust, ekki megi slá málinu á frest, hringja eigi í Neyðarlínuna eins fljótt og kostur er og þá megi ekki hafa nein samskipti við grunaðan geranda varðandi samtalið við barnið.



Þá eru safnaðarmeðlimir minntir á refsiákvæði um að sá sem láti hjá líða að tilkynna um illa meðferð barns og að það varði sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.



„Við bjuggum áður á Írlandi þar sem ég þjónaði með fjölskyldunni, þar bjuggum við í átta ár. Umræðan um kynferðisbrot innan kaþólsku kirkjunnar voru áberandi þar. Brot sem hafði verið haldið leyndum og þögguð. Samfélagið þar, eins og víðar þar sem slík leynd hefur verið viðhöfð, er í sárum, sárin eru lengi að gróa. Sem kristið fólk höfum við ríka skyldu til að takast á við þetta. Megum ekki láta þetta viðgangast,“ segir Gavin.



Hvenær er beitt safnaðaraga? Til dæmis með brottvísun úr söfnuðinum?

„Þegar um alvarlegar syndir er að ræða þar sem einstaklingur afneitar trú og brýtur lög Guðs,“ segir Gavin.



Þú ert þá að tala um morð, nauðgun, þjófnað og slíka glæpi?

„Já.“

En hvað með til dæmis framhjáhald, heimilisofbeldi og slíkt?

„Það er alveg ljóst að þegar manneskja lifir þvert á orð Guðs getur hún ekki verið hluti af söfnuðinum, aðventistar lifa eftir orði Guðs.“

Hvað með hjónaskilnað? Framhjáhald?

„Við höldum hjónabandið í heiðri, manns og konu. Teljum það mikilvægt.

Og safnaðarmeðlimir þurfa að borga tíund?

„Ekki að borga, heldur gefa aftur til Guðs,“ segir Gavin. „Við störfum eftir heimsskipulagi. Tíundin fer í laun presta. Hér í okkar söfnuði eru öll laun presta jöfn. Það eru engar aukagreiðslur til okkar fyrir störf okkar. Svo sem skírn. Ef kirkja verður vettvangur viðskipta er hún ekki traust. Það er mitt álit,“ segir Gavin „Við rekum líka hjálparstarf víða um heim þar sem áhersla er lögð á samhjálp og menntun.“

Hvað með kynin? Hafa þau mismunandi hlutverkum að gegna í söfnuðinum eða kirkjunni?

„Kynin eru jöfn fyrir Guði, bæði kona og karl eru sköpuð í mynd Guðs. Mér finnst það alveg skýrt en aðrir gætu túlkað sköpunarsöguna öðruvísi. Textar í Biblíunni endurspegla annan menningarheim en er í dag. Endurspegla það valdamisræmi sem var þá og er enn víða um heim. Kirkja sjöunda dags aðventista er heimssamtök og því svolítið tekist á um ýmsa hluti í kosningum því menning landanna sem við störfum í er mismunandi. Á Íslandi hefur starfað kvenprestur og í Afríku þó nokkrir,“ segir Gavin. „Við erum að færast í átt að jafnrétti.“

En samkynhneigð? Er samkynhneigðum útskúfað úr söfnuðinum?

„Samkynhneigðir geta verið í söfnuðinum en það er ætlast til þess að þeir stundi skírlífi. Þetta er grundvallarreglan,“ segir Gavin. „Auðvitað breytast samfélög og menning þeirra. Margt er breytt, en þetta breytist ekki og er grundvallarregla, hjónaband karls og konu sem við höldum í heiðri.“

Eitt af því sem einkennir aðventista er áhersla þeirra á sjálfsrækt. Þeir leggja mikla áherslu á að safnaðarmeðlimir hlúi jafnhliða að sál, huga og líkama. „Við borðum hina upprunalegu fæðu sem Guð gaf manninum samanber sköpunarsöguna. Borðum helst hreina fæðu. Í dæmisögunni um Örkina hans Nóa sem við segjum gjarnan börnum er talað um dýrin á leið til arkarinnar. Sum dýr komu í pörum, tvö og tvö. Þau teljast til óhreinnar fæðu. Önnur komu sjö og sjö saman og teljast til hreinnar fæðu. Við borðum ekki svínakjöt, ekki krabbakjöt,“ segir Gavin og staðfestir einnig að helst eigi aðventistar ekki að borða annan fisk en með hreistur. Sum sé ekki skötusel. Það má heldur ekki borða sel eða hval. „Okkur finnst mikilvægt að aðhyllast grænmetisfæði.“

Aðventistar eru á móti reykingum, áfengis- og eiturlyfjaneyslu. Leggja ríka áherslu á hvíld. Ekki bara á laugardögum heldur líka í lífinu sjálfu til að gæta að andlegri heilsu. Gavin útskýrir þessa sterku áherslu aðventista. „Í sköpunarsögunni er talað um að maðurinn sé skapaður í mynd Guðs. Við erum hugur, sál og líkami og aðventistar hafa alltaf haft mjög skýran skilning á tengslum hugar, sálar og líkama. Kristnir leiðtogar vilja sumir einblína á andlegu hliðina, við viljum líta á alla þessa þætti sem samverkandi heild. Ef við erum líkamlega veik þá hefur það áhrif á hugann. Mannleg tilvera í mynd Guðs snýst um að leggja rækt við alla þessa þætti til þess að vera sú manneskja sem Guð vill að við séum.“



Ekki besta útgáfan að sjálfum þér, heldur besta útgáfan sem Guð vill að þú sért?

„Já, þetta er í tísku núna. Sjálfsrækt sem aðventistar hafa lagt áherslu á í meira en öld,“ segir Gavin og brosir.

„Við rekum fjölmörg sjúkrahús víða um heim þar sem eru stundaðar rannsóknir um þessa samverkandi þætti,“ segir Gavin og greinir til að mynda frá verkefni í kirkjunni sem hann var prestur í á Írlandi. „Við vorum með prógramm fyrir þunglynda sem læknar komu að í kirkjunni. Við viljum aðstoða fólk við að lifa í Guðs mynd og heilsusamlegum lífsstíl. Viljum hjálpa fólki að takast á við sjúkleika. Samband okkar við Guð verður betra þegar við búum við góða heilsu.“



Aðventistar hafa ekki viljað reka spítala hér á landi?

„Nei, það er dýrt og krefst meiri mannafla en við höfum yfir að ráða hér á landi,“ segir Gavin. „En okkur hefur auðnast að reka hér skóla,“ segir hann og lítur út um gluggann að Suðurhlíðarskóla þar sem eiginkona hans starfar sem kennari.







Sjúkrahúsið í Celebration

„Þú veist um bæinn Celebration sem Disney byggði í Flórída?“ spyr Gavin. Það rifjast upp fyrir blaðamanni fréttir frá tíunda áratugnum af þorpi sem átti að verða eins konar fyrirmyndarþorp í heimi sem hafði farið villur vegar. Útópía. Í Celebrat­ion átti að leggja áherslu á ferska fæðu og hreyfingu. Áfangastaður sálarinnar var slagorðið eitt sinn. Gavin segir frá því að Disney hafi valið sjöunda dags aðventista til að reka sjúkrahús bæjarins eftir stórt útboð. Og þar kemur litríki kassinn við sögu og útskýrir heilsustefnu aðventista sem þeir hafa stundum kynnt sem Creation Health.



C Stendur fyrir Choice eða val. R stendur fyrir Rest eða hvíld. E stendur fyrir Environment eða umhverfi. A stendur fyrir Activity eða virkni. T stendur fyrir Trust eða traust. I stendur fyrir Interpersonal relat­ions eða tengslanet. O stendur fyrir Outlook eða viðhorf og N stendur fyrir Nutrition eða næringu.



„Hér er hugtakinu heilsa skipt upp í átta þætti til einföldunar og þetta er áhugaverð leið sem nær til margra. Fólk nær virkilega árangri með því að skoða þetta í einföldum skrefum,“ segir Gavin og bendir á próf sem kannar hversu vel manneskja stendur að vígi í hverjum þætti. Lesendur geta spreytt sig á slíku prófi hér og geta einnig hlaðið niður appi sér til aðstoðar. 



„Það að manneskja þrífist betur þegar hún leggur alúð við þessa þætti í eigin lífi er ekki bara hugmyndir eða frasar, heldur stutt af rannsóknum.“



En hvers vegna er Gavin á Íslandi? 

Nú, ég á íslenska konu. Ég hef búið og starfað hér áður og líkar vel lífið hér. Ég hef sterka köllun og sannfæringu fyrir því að vera hér á Íslandi. Ég fann það strax þegar ég steig út úr flugvélinni. Hér á ég að vera.“



Gavin vinnur að doktorsritgerð sinni sem fjallar um möguleika einstaklinga til að trúa. Hann vill finna praktískar leiðir fyrir fólk til að lesa Biblíuna. „Það að hjálpa fólki að rækta sambandið við Guð er mitt áhugamál. Upplýsingar einar og sér hjálpa ekki fólki að breytast. Ef ég get hjálpað fólki að lesa Biblíuna þannig að það gagnist, ekki eins og heimspekirit, heldur til að það þroskist í trú sinni þá hef ég gefið fólki von og tækifæri.“

Raufarhólshellir. Fréttablaðið/Vilhelm
Kynna sköpunarverk Guðs fyrir ferðamönnum 

Kirkja sjöunda dags aðventista sinnir fjölbreyttari verkefnum en marga grunar. Opnað var fyrir gesti í Raufarhólshelli í Leitarhrauni austan Bláfjalla í Þrengslunum í sumar og kostar 6.400 krónur að skoða hellinn. Í sumar heimsóttu tíu þúsund manns hellinn.

Landið er í eigu Kirkju sjöunda dags aðventista sem leigir fyrirtækinu Raufarhól landið.

Stærsti fjárfestirinn er fjárfestingarsjóður á vegum Landsbréfa, Icelandic Tourism Fund. Þá er Skúli Sigfússon, kenndur við Subway, einn fjárfesta. Aðventistar ákváðu að taka hellinn í gegn fyrir nokkru. Pöllum var komið upp, stígar hlaðnir og ljósabúnaði komið fyrir. Eiríkur Ingvarsson, aðventisti og fjárfestir, var í forsvari fyrir verkefninu og leiddi saman fjárfesta. 

Anthony Hopkins við tökur stórmyndarinnar Noah sem fóru meðal annars fram í Raufarhólshelli. Aðventistar ákváðu að kynna sköpun guðs og opna hann ferðamönnum. Fréttablaðið/Vilhelm
Raufarhólshellir vakti mikla athygli eftir að Russell Crowe og Anthony Hopkins voru þar við tökur vegna kvikmyndarinnar Noah. Aðventistakirkjan hefur átt eignina í marga áratugi. 

Á tímabili fylgdi henni kostnaður en nú gefur hún af sér að sögn Björgvins Ibsen, fjármála- og eignastjóra aðventista. Nú þegar hellirinn sé í útleigu og gefi af sér geti söfnuðurinn hugað að fleiri tækifærum. Með því að leigja Raufarhóli hellinn segist söfnuðurinn vera að framvísa og leyfa þeim að sýna gestum sköpunina. Gavin vísar í Matteusarguðspjall í kynningarmyndbandi um hellinn: „Gakk inn í fögnuð herra þíns.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×