Lífið

Ótrúlega gefandi starf

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sylvía Hallsdóttir í síðustu messu sinni sem meðhjálpari.
Sylvía Hallsdóttir í síðustu messu sinni sem meðhjálpari. Mynd/Guðmundur Magnússon
Það var á aðfangadag árið 1995 sem Sylvía Halldórsdóttir var beðin að vera meðhjálpari í messu í Útskálakirkju sama dag klukkan 18, því starfandi meðhjálpari væri veikur. Eftir það varð ekki aftur snúið. Nú rúmum 22 árum síðar hefur hún sagt skilið við embættið og lét messuna á gamlárskvöld 2017 marka þau tímamót.

Sylvía er fædd í Skinnalóni á Melrakkasléttu haustið 1944 en ólst upp á Raufarhöfn frá þriggja ára aldri. Hún fór snemma að vinna, var í sveit og svo til skiptis í sveit eða að passa börn. Þá vann hún við síldarsöltun og einnig á símstöðinni á Raufarhöfn þar sem voru þrjár símalínur til Akureyrar sem þurftu að gagnast öllum, bæði heimamönnum, síldarvinnslufólki og síldarflotanum. Sylvía vann einnig við verslunarstörf, fiskvinnslu og í rúm 20 ár á hjúkrunarheimili í Garðinum eða þar til því var lokað 2014.

„Ég kem úr stórri fjölskyldu, við erum sjö systur og einn bróðir og afkomendur frá foreldrum mínum eru á bilinu 130 til 140. Sjálf á ég mann, tvö börn, þrjú ömmubörn og þrjú langömmubörn,“ segir Sylvía um fjölskyldu sína.

Sylvía segir að allt hafi verið skemmtilegt við að vera meðhjálpari í Útskálakirkju en hlutverkið felst í því að undirbúa fyrir messur og aðstoða í þeim, vera við skírnir, brúðkaup, jarðarfarir, líta eftir kirkjuhúsinu, sjá um að flagga og jafnvel taka á móti fólki sem vildi skoða kirkjuna.

„Starfið var alltaf skemmtilegt og gaf mér mikið, það erfiða var jafnvel mest gefandi í starfinu. Maður fékk að sjá svo vel hvað manneskjan er margbreytileg. Þetta starf er ótrúlega gefandi, það er ekki hægt að meta það til fjár,“ bætir Sylvía við. Hún starfaði með mörgum prestum í kirkjunni, meðal annarra þeim Sigfúsi B. Ingvasyni, Hirti Magna Jóhannssyni, Birni Sveini Björnssyni, Önundi Björnssyni, Arngrími Jónssyni, Báru Friðriksdóttur og núverandi presti, Sigurði Grétari Sigurðssyni. Einnig ótal mörgum öðrum sem voru í einni athöfn eða fleirum.

Sylvía segir gott að hætta á þessum tímamótum, starfið sé frekar bindandi og hún ætli nú að njóta þess að vera frjáls. mhh@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×