Erlent

Ellefu prinsar í haldi eftir mótmæli við konungshöll

Birgir Olgeirsson skrifar
Salman bin Abdulaziz Al Saud, konungur Saudi Arabíu.
Salman bin Abdulaziz Al Saud, konungur Saudi Arabíu. Vísir/Getty
Ellefu prinsar eru í haldi yfirvalda í Saudi Arabíu eftir að þeir höfðu mótmælt fyrir utan konungshöllina í höfuðborginni Riyadh. Ástæða fyrir mótmælum þeirra var ákvörðun yfirvalda í Saudi Arabíu um að hætta að greiða opinber gjöld þeirra.

Yfirvöld þar í landi kynntu nýverið áform um að hætta að niðurgreiða orkunotkun, breytingar á skattheimtu og fella niður hlunnindi konungsfjölskyldunnar til að reyna að mæta tekjuskerðingu sem hefur orðið vegna lækkunar á olíuverði.

Prinsarnir ellefu ákváðu að mótmæla fyrir utan konungshöllina síðastliðinn fimmtudag þegar þeim varð ljóst að ákveðið hefði verið að ríkið myndi hætta að greiða fyrir þá vatns- og rafmagnsreikninga. Þá töldu þeir sig einnig eiga inni bætur frá ríkinu vegna dauðadóms yfir frænda þeirra, prinsinum Turki bin Saud al-Kabeer.

„Þrátt fyrir að þeim hafi verið gerð grein fyrir því að kröfur þeirrar væru ekki réttmætar, þá neituðu prinsarnir að yfirgefa svæðið og röskuðu þar með ró og friði. Öryggisverðir höfðu afskipti af prinsunum sem voru síðan handteknir,“ segir í yfirlýsingu frá embætti ríkissaksóknara Saudi Arabíu sem greint er frá á vef Reuters.

„Í framhaldi af handtöku þeirra hafa þeir verið kærðir fyrir nokkur brot. Þeir eru í haldi í Al-Hayer fangelsinu suður af höfuðborginni og bíða réttarhalda.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×