Körfubolti

Bikarúrslitaleikur karla á nýjum tíma í ár | Strákarnir þurfa að vakna fyrr

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson verður með KR í Höllinni eins og í fyrra.
Jón Arnór Stefánsson verður með KR í Höllinni eins og í fyrra. Vísir/Anton
Körfuknattleikssamband Íslands heldur nú bikarúrslitin sín á nýjum tíma en í stað þess að fara fram um miðjan febrúar þá verða leikirnir nú í annarri viku janúar.

Það er ekki það eina sem er breytt í ár því að þessu sinni mun bikarúrslitaleikur karla fara fram á undan bikarúrslitaleik kvenna.

Undanúrslitaleikir karla og kvenna fara fram á miðvikudag (karlar) og fimmtudag (konur) en bikarúrslitaleikirnir eru síðan á laugardaginn.

Bikarúrslitaleikur karla hefur alltaf verið spilaður á eftir kvennaleiknum eða í kringum fjögurleytið. Í ár fer hann fram klukkan 13.30 en kvennaleikurinn verður hinsvegar klukkan 16.30.

„Við ákváðum í fyrra að skiptast á hér eftir, það er hvort leikum við undanúrslit karla á miðvikudegi fyrst eða kvenna. Í fyrra voru karlar á fimmtudegi og leika á miðvikudegi í ár. Þess vegna leika þeir einnig fyrr á laugardeginum,“ sagði Kristinn Geir Pálsson, Afreksstjóri KKÍ, í svari við fyrirspurn Vísis.

Karlarnir verða síðan með seinni leikinn á næsta ári og skiptast karlar og konur á því að spila fyrri leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×