Enski boltinn

„Voru betri en flest úrvalsdeildarlið á Etihad“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lee Johnson og Hörður Björgvin Magnússon.
Lee Johnson og Hörður Björgvin Magnússon. Vísir/Getty
Lee Johnson, knattspyrnustjóri Bristol City, var vonsvikinn en stoltur af sínu liði eftir 2-1 tap gegn Manchester City í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildarbikarsins í kvöld.

„Ég er mjög stoltur af mínu liði. Vonsvikinn með að þeir hafi náð að skora svona seint en mínir strákar voru frábærir,“ sagði Johnson eftir leikinn, en Sergio Aguero skoraði sigurmark City á lokamínútu uppbótartímans á Etihad vellinum í kvöld.

„Við komum hingað og reyndum að spila okkar leik og náðum að koma þeim í vandræði í nokkur skipti. Þeir voru meira með boltan því þeir eru með frábært lið, en þetta er bara hálfleikur og við erum enn inni í þessu einvígi.“

Seinni leikur liðanna fer fram á Ashton Gate, heimavelli Bristol, 23. janúar næst komandi.

„Ég sagði við strákana að þeir hafi pressað frábærlega og geti ekki verið vonsviknir því við erum enn inni í þessu. Þeir sýndu heiminum að við erum góðir í fótbolta.“

„Þeir voru með sjálfstraust og voru ekki hræddir á boltanum. Pep Guardiola sagði við mig að við hefðum spilað betur en flest lið í úrvalsdeildinni þegar þau koma hingað.“

Bristol skoraði mark úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik og það gæti reynst þeim mikilvægt að hafa útivallarmark þegar uppi stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×