Enski boltinn

Giroud líklega ekki með gegn Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hugað að Giroud í leiknum í gær.
Hugað að Giroud í leiknum í gær. Vísir/Getty
Arsenal verður án sóknarmannsins Olivier Giroud á föstudagskvöldið er liðið mætir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni ef af líkum lætur. Hann meiddist aftan í læri í 1-0 sigri liðsins á West Ham í enska deildabikarnum í gær.

Giroud þurfti að fara af velli þegar þrettán mínútur voru til leiksloka í gær og neitaði Arsene Wenger, stjóri Arsenal, því ekki að útlitið væri dökkt.

„Ég held að hann spili ekki með á föstudag. Nú til dags fara menn í myndatöku 48 klukkustundum eftir meiðslin og þýðir það að við fáum að vita á fimmtudag hversu alvarleg þau eru,“ sagði Wenger.

„Hann var fremur þjáður eftir leik en það þarf ekki endilega að þýða að meiðslin séu alvarleg,“ bætti Wenger við.

Giroud hefur verið aðeins einu sinni í byrjunarliði Arsenal í deildinni þetta tímabilið en komið við sögu í flestum þeirra sem varamaður og skorað alls fjögur mörk. Arsenal er í fimmta sæti ensku úrvalsdeildairnnar með 33 stig. Liverpool er einu sæti ofar með 34 stig.

Leikur liðanna hefst klukkan 19.45 á föstudagskvöldið og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×