Lífið

Gallagher-bræður búnir að slíðra sverðin?

Atli Ísleifsson skrifar
Liam og Noel Gallagher á sviði árið 2005.
Liam og Noel Gallagher á sviði árið 2005. Vísir/AFP
Vísbendingar eru um að bresku bræðurnir Noel og Liam Gallagher, forsprakkar sveitarinnar Oasis, hafi slíðrað sverðin eftir margra ára deilur og skítkast sín á milli.

Yngri bróðirinn, Liam, segir frá því á Twitter-síðu sinni að „allt sé í góðu“ milli þeirra þar sem hann er spurður um samskipti sín við bróðurinn Noel.

Til líkamlegra átaka kom milli bræðranna baksviðs árið 2009 og í kjölfarið sagðist Noel hafa fengið nóg af samstarfinu.

Fyrr á árinu gagnrýndi Liam bróður sinn harðlega fyrir að hafa ekki sótt fjáröflunartónleika handa fórnarlömbum hryðjuverkaárásarinnar í Manchester í sumar að loknum tónleikum Aríönu Grande í Manchester Arena.

Svo virðist sem að einhver þíða sé nú í samskiptunum eftir að Liam, sem gaf úr sólóplötu sína As You Were fyrr á þessu ári, óskaði Noel og starfsliði hans gleðilegra jóla á Twitter í gær.

Í færslunni nefnir Liam „NG“ og voru aðdáendur Oasis skiljanlega forvitnir hvort að endurfundir sveitarinnar kynnu að vera í kortunum á næsta ári.

Þannig spurði einhver tístarinn Liam hvort svo kynni að fara að hann myndi taka æðiskast á Twitter um jólin ef Noel myndi ekki hafa samband.

„Hann hefur þegar haft samband. Það er allt í góðu á milli okkar,“ segir Liam.

Mörgum þykir þó ólíklegt að Oasis muni aftur taka saman, en Noel greindi frá því fyrr á árinu að slíkt myndi „drepa hann sem manneskju“.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×