Erlent

Pólverjar fá sögulega áminningu frá ESB

Atli Ísleifsson skrifar
Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnarinnar, var ómyrkur í máli á fréttamannafundi í dag.
Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnarinnar, var ómyrkur í máli á fréttamannafundi í dag. Vísir/AFP
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins áminnti í dag pólsk stjórnvöld fyrir að brjóta gegn grunngildum sambandsins um lýðræði vegna lagafrumvarps stjórnarinnar sem gengur út á að auka afskipti stjórnmálamanna að skipun dómara.

Svo virðist sem að framkvæmdastjórn ESB hafi misst þolinmæðina gagnvart íhaldsstjórninni sem er við völd í Póllandi og telur óhæði dómstóla í hættu með frumvarpinu.

Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnarinnar, segir það miður að framkvæmdastjórnin hafi þurft að grípa til þessara aðgerða en að ekkert annað hafi verið í stöðunni. Málið snúi að einingu sambandsins.

Ungverjar á bremsunni

Til að hægt yrði að refsa Pólverjum með því að beita 7. grein Lissabon-sáttmálans og svipta Pólverjum atkvæðisrétti í ráðherraráðinu, hefði þurft til samhljóða ákvörðun allra aðildarríkja, að Pólverjum frátöldum.

Stjórnvöld í Ungverjalandi eru hins vegar ekki sammála mati framkvæmdastjórnarinnar og gengur hún því ekki lengra en að segja að það sé „skýr hætta“ á að Pólverjar brjóti gegn grunngildum sambandsins um lýðræði.

Án fordæmis

Þetta er í fyrsta sinn sem framkvæmdastjórnin beitir því ráði að áminna aðildarríki með þessum hætti og undir þessum kringumstæðum.

Framkvæmdastjórnin hefur veitt pólskum stjórnvöldum þrjá mánuði til að gera breytingar á frumvarpi sínu og hefur forsætisráðherrann Mateusz Morawiecki sagst reiðubúinn að eiga samtal við framkvæmdastjórnina.

Með frest til 5. janúar

Póllandsstjórn hefur áður sagt nauðsynlegt að staðfesta frumvarpið þar sem dómstólar landsins starfi ekki með skilvirkum hætti og þörf sé á umbótum.

Andrzej Duda Póllandsforseti hefur frest til 5. janúar næstkomandi til að ákveða hvort hann staðfesti lögin eða beiti neitunarvaldi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×