Lífið

Landsliðsmarkvörður vill byltingu í málefnum barna í vanda

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
"Þegar kemur að börnunum okkar, þá mega krónur ekki vera hindrun,“ segir Björgvin og beinir tali sínu til nýs heilbrigðisráðherra.
"Þegar kemur að börnunum okkar, þá mega krónur ekki vera hindrun,“ segir Björgvin og beinir tali sínu til nýs heilbrigðisráðherra. Visir/Ernir
Björgvin Páll Gústavsson flutti heim til Íslands síðasta sumar með eiginkonu sinni Karen Einarsdóttur og dóttur þeirra sem er fjögurra ára gömul. Hjónin eignuðust tvíbura í nóvember. Þau stefndu á að búa fjölskyldunni heimili á Íslandi þar til Björgvin fékk gott tilboð frá liðinu Skjern í Danmörku. Hann skrifaði undir hjá félaginu í vikunni.

Eiginkonan á skilið fálkaorðu

Það er þó enginn asi á þeim að flytja aftur út. Tvíburarnir eru nú um fjögurra vikna gamlir og fjölskyldan vill vera heima á Íslandi fyrstu mánuðina í lífi þeirra. Jólin eru fram undan og það er í mörgu að snúast. „Við nýja fjölskyldan ætlum að eyða jólunum saman og hafa það eins kósí og við mögulega getum. Þetta eru búnar að vera alvöru vikur síðan tvíburarnir komu í heiminn, þau eru enn föst í því að vaka á nóttunni og svo er stelpan okkar búin að vera slöpp á sama tíma, fá gat á hausinn og fleira. Ég á magnaða konu sem er búin að vera eins og ofurmenni síðustu fjórar vikur. Hún hefur séð um að heimilið haldi velli og er sjálf búin að vera veik ofan í allt saman. Guðni hlýtur að mæta með fálkaorðuna handa henni á aðfangadag,“ segir hann.

Björgvin heldur út með fjölskyldunni næsta sumar. Í Skjern er lögð rík áhersla á að liðsmenn fái tíma til að sinna fjölskyldunni. Feður taki virkan þátt í uppeldi barna sinna þrátt fyrir að vera í atvinnumennsku. Nokkuð sem skiptir Björgvin miklu máli og var því veigamikið í ákvörðun hans.

„Ég taldi mig vera kominn heim til að vera en þegar mér bauðst að spila í Danmörku frá og með næsta sumri í liði sem heitir Skjern gat ég ekki sagt nei þótt ég hefði íhugað alvarlega að vera um kyrrt á Íslandi. Ástæða þess er hreinlega sú að þetta er mögulega besti klúbbur í heiminum þegar kemur að því að ala upp börn en allt umhverfið er þannig uppbyggt að fjölskyldunni líði vel og að feður geti tekið þátt í að sinna uppeldi barna sinna,“ segir Björgvin.

Hann segir þá ákvörðun að koma heim til Íslands síðasta sumar hafa verið þá einu réttu. „Við fjölskyldan þurfum á allri þeirri hjálp sem við getum fengið frá okkar nánasta fólki að halda,“ segir Björgvin.





Dóttir Björgvins og Karenar og tvíburarnir í góðu yfirlæti.
Handboltinn bjargaði

Hann rifjar upp grein sem Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, skrifaði á dögunum um foreldrahlutverkið. Í henni sagðist Kári hafa vanrækt börnin sín. Metnaður hans í vísindum hefði verið hans villuljós. Greinin var öðrum þræði um íslenskt samfélag og stjórnmál og Kári brýndi fyrir nýrri ríkisstjórn að setja hagsmuni barna í forgang.

Metnaður Björgvins í handbolta hefur aldrei verið villuljós. Meira eins og ljós í myrkri.

„Ég ætla ekki að vera drullusokkur og ég trúi Kára Stefánssyni vel, að það sé vond tilfinning að hafa verið lélegt foreldri, en ég lofaði sjálfum mér því frá því að fyrsta barnið mitt kom í heiminn að allar mínar ákvarðanir yrðu teknar með hag barnanna að leiðarljósi. Ég á handboltanum bæði mitt líf og barnanna minna að þakka en handboltinn bjargaði mér út úr stormasamri æsku því ég fann stað þar sem ég gat notið mín og fundið sjálfan mig. Atvinnumennskan í handbolta gerði svo það að verkum að ég og konan gátum búið til fjölskyldu en við þurftum á hjálp að halda til þess að búa til okkar þrjú yndislegu börn. Það kostaðu mikla peninga, styrk, tíma og þolinmæði,“ segir Björgvin.

Afþakkaði næstum tilboðið

Björgvin á að baki brotna barnæsku. Hann glímdi við mikla vanlíðan og hegðunarörðugleika sem hann braust út úr á fullorðinsárum. Frá því að hann kom til Íslands síðasta sumar hefur hann haft að markmiði að hjálpa krökkum í vanda. Hann kynntist fyrirtækinu Vinakoti og lagði starfsemi þess lið. Starfið í fyrirtækinu varð næstum til þess að hann afþakkaði tilboðið frá Skjern.

„Þegar ég kom til Íslands í sumar var mitt fyrsta markmið að hjálpa krökkum sem voru í svipuðum málum og ég þegar ég var yngri og ég kynntist þá fyrirtæki sem heitir Vinakot sem er í raun ástæðan fyrir því að ég var næstum því búinn að hafna tilboðinu frá Skjern. Hjá Vinakoti er verið að þjóna börnum með fjölþættan vanda. Ég hef verið í mörgum frábærum liðum í gegnum tíðina en ég held að ég hafi aldrei verið í eins öflugu liði og Vinakoti sem er orðin mín önnur fjölskylda, fjölskylda líkt og mín eigin, sem er hlaðin fallegum gildum og tilbúin að gera allt til þess að börnunum líði vel,“ segir Björgvin.

Viljinn ristir djúpt

Björgvin hefur áður rætt opinberlega um barnæsku sína. Hann glímdi við ýmsa hegðunarörðugleika og dvaldi um tíma á BUGL til að ná áttum. Heimilisaðstæður hans áttu ríkan þátt í hegðunarvandanum.

Það er ekki langt síðan hann sótti skjöl um sig úr kerfinu. „Þessi vilji til að hjálpa ristir djúpt,“ segir hann og deilir broti úr skýrslu frá umsjónarkennara í grunnskóla.

15. maí 1993: Brot úr skýrslu frá um­sjónar­kennara í grunnskóla

„Björgvin kemur mér fyrir sjónir, sem efnilegur, vel gefinn drengur, sem vill standa sig, en ræður ekki við það vegna ýmissa uppeldisatriða. Hann er mjög órólegur og fyrirferðarmikill í skólanum og sýnir börnunum í bekknum mikinn yfirgang. Hann beitir þau fantabrögðum t.d. kýlir í maga, tekur hálstaki, beygir uppá handleggi til þess að ná völdum og þau hlýði honum. Börnin eru flest hrædd við hann, en gefa honum þó tækifæri og fyrirgefa honum ótrúlega oft og vilja hafa hann með. Hann á þó sína góðu daga og er mjög metnaðargjarn og vill vera bestur. Hann þarf mikla þolinmæði og hlýju.“



„Þarna er ég ekki orðinn átta ára gamall. Þetta sama ár er ég tekinn með hníf í skólanum og vistaður á BUGL,“ segir Björgvin og deilir öðru broti úr gömlu skjali um sig. Sem eru lokaorð í viðtali við húsráðendur eftir vistun hans í sveit. Þá er hann tíu ára gamall.

29. september 1995: Lokaorð í viðtali við húsráðendur eftir vistun í sveit

„Þegar húsráðandi var aðspurð að því hvort hún gæti hugsað sér að taka Björgvin aftur í sveit einhvern tíma seinna, saup hún hveljur og sagðist aldrei geta lagt það á sitt heimilisfólk. Sagði hún Björgvin vera þannig að erfitt væri að þykja vænt um hann og vissulega væri erfitt að horfa upp á þetta vanrækta barn.“

„Þetta gefur ágætis mynd af minni æsku þó svo að ekkert sé sagt um þau áföll sem dundu á mér. Móðir mín var gríðarlega veik andlega þegar ég var að alast upp en hún gerði sína fyrstu sjálfsvígstilraun þegar ég var aðeins þriggja ára gamall,“ segir Björgvin frá. 

Varð vitni að sjálfsvígstilraun

Hann varð svo vitni að sjálfsvígs­tilraun móður sinnar þegar hann var tólf ára. Hann segist ekki hafa getað tekist á við áfallið en þurft að harka af sér. Yngri systir hans hafi þurft á honum að halda. 

„Það að móðir mín skuli enn vera á lífi er kraftaverk og ekki margir sem myndu standa af sér það sem hún hefur gengið í gegnum en í seinni tíð hafa dauðsföll tveggja unnusta bæst ofan á þunglyndi, kvíðaröskun, félagsfælni. Mamma er nú nýorðin fimmtug og á fjögur ömmubörn. Hún er á ótrúlega góðum stað þrátt fyrir allt,“ segir Björgvin. „Hér eru skilaboð til þín mamma: Ég elska þig.“

Öll mál í einni hrúgu

Það sem brennur á Björgvini nú svo stuttu eftir að hann hefur samþykkt tilboð Skjern er skortur á skilningi á aðstæðum hóps barna sem þurfa sérhæfðan stuðning. Honum finnst illa búið að þessum hópi barna í íslensku samfélagi. „Ef æska mín er skoðuð í samhengi við þau börn sem Vinakot aðstoðar þá finnst mér það sem ég hef gengið í gegnum alger tittlingaskítur. Þetta er hópur barna sem eru með fjölmargar greiningar. Þau hafa upplifað hluti sem ekkert barn á að þurfa að gera,“ segir Björgvin og segir að sér finnist það bæði skakkt og skringilegt að öllum þessum málum sé hrúgað saman í einn bunka. „Sama bunka og ég var í þegar mál mitt var til meðferðar hjá Barnaverndarstofu. Það er algerlega galið. Þessi hópur barna og ungmenna með fjölþættan vanda er gríðarlega krefjandi og svo langt frá því að passa inn í þennan margumtalaða kassa,“ segir Björgvin og beinir tali sínu til stjórnvalda sem honum finnst að ættu að greiða götu fyrirtækja sem vilja aðstoða börn í vanda og falla á milli kerfa. Týnast eða þurfa að bíða dýrmætan tíma lífsins.

Falla á milli kerfa

„Þó svo að nýr heilbrigðisráðherra ætli ekki að auka einkavæðingu innan heilbrigðiskerfisins þá vona ég að hún geri sér grein fyrir því að kerfið er fullt af götum sem góð og velviljuð fyrirtæki eru að fylla upp í og veita þannig ákveðnum hópum skjól sem kerfið getur ekki veitt þeim, allavega ekki að svo stöddu. 

Þess vegna er mikilvægt að heilbrigðiskerfið samþykki að þessi hópur barna sé einnig þess vandamál og sýni aukna ábyrgð.

Þetta eru börn sem falla í raun inn á milli kerfa og þarfnast þess að það sé samfella í þjónustu ríkis og sveitarfélaga,“ segir Björgvin og segir úrlausn þessara mála hafa legið hjá mörgum aðilum. 

Björgvin hefur kynnt sér vel stöðuna í dag og vísar í skýrslu nefndar um samhæfða þjónustu við börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir sem var gefin út árið 2013. 

„Í skýrslunni kemur fram að það er ekki ljóst hver ber meginábyrgð á því að börn njóti nauðsynlegrar þjónustu og umönnunar og að foreldrunum standi aðstoð til boða,“ segir Björgvin. 

Nefndin hafi rætt í þaula tengsl barnaverndar og þjónustukerfis fatlaðra og komist að þeirri niðurstöðu að þjónusta við þennan afmarkaða hóp eigi í meginatriðum heima innan þjónustukerfis fatlaðs fólks þar sem til staðar er þekking og reynsla af mismunandi fötlunum og aðgengi að mikilvægri nærþjónustu sveitarfélaga, hvort sem um er að ræða almenna félagsþjónustu, sérhæfða þjónustu vegna fötlunar eða barnavernd.

Krónur mega ekki verða hindrun

Björgvin hefur áhyggjur af þessu og vill að vandað verði til verka. Fjármögnun megi ekki verða forsenda þjónustu. Börnin eigi að fá þjónustu skilyrðislaust. 

„Forsenda þess að sveitarfélögin geti tekið að sér þjónustu við börnin og fjölskyldur þeirra er sú að af hálfu ríkisins verði tekið sérstakt tillit til þeirra barna sem hafa miklar þjónustuþarfir vegna geð- og þroskaraskana við mat á kostnaði sveitarfélaganna við þjónustu við fatlað fólk.

Nefndin talar um að leggja verði mat á þetta og eyrnamerkja málaflokknum fé. Auðvitað er það synd að þetta skuli í lok dags alltaf snúast um peninga en þegar kemur að börnum okkar þá mega krónur ekki vera hindrun,“ segir Björgvin og beinir tali sínu til nýs heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur.

Vill kerfisbreytingu

„Ég set þá kröfu að heilbrigðisráðherra stækki pott sveitarfélaganna í þessum mikilvægu málum og komi til móts við þennan einstaka hóp barna til þess að hægt sé að grípa fyrr inn í og halda þeim lengur inni í kerfi sem virkar fyrir þau. Með auknu fjármagni til sveitarfélaganna og auknum skilningi á þessum hópi eiga þau ennþá von um betra líf,“ segir Björgvin.

Hann segir þess utan þörf á kerfisbreytingu í aðhlynningu barna niður í leikskóla landsins.

„Það þarf betra utanumhald og það þarf að vinna í grunnvandamálum íslenskra barna sem glíma við hinn ýmsa vanda. Það þarf að takast á við uppbyggingu á sterkum grunni. Hvort sem um er að ræða sálfræðiþjónustu við börn í grunnskólum eða hver sem öll kosningaloforðin voru hjá öllum þessum flokkum. Málefni barna þarf að leysa í dag,“ segir Björgvin og segir hættu á því að annars verði morgundagurinn enn þyngri til úrlausnar.

Björgvin Páll og fjölskylda flytja út næsta sumar. Visir/Ernir
Mál upp á líf og dauða

„Börn og ungmenni sem glíma við þyngstan vanda sem hafa sprengt af sér öll önnur úrræði geta notið úrræða á borð við þau sem Vinakot býður. Hvort sem við köllum þetta börn með fjölþættan vanda, börnin á götunni, týndu börnin eða börnin sem glíma við þyngstan vanda, flestar greiningar. Hvað sem viljum kalla þau, þá eru þetta börnin okkar.

Ég er tilbúinn að greiða mína skattpeninga í komandi framtíð í að þessum krökkum líði vel og verði hvorki sjálfum sér né öðrum til skaða. Þetta eru mál upp á líf og dauða,“ segir Björgvin.



Björgvin segist vonast til þess að ný ríkisstjórn tali minna og geri meira. Visir/Ernir
Ný ríkisstjórn geri meira

Hann segist vonast til þess að þegar hann komi aftur heim eftir tvö ár í atvinnumennsku í Danmörku hafi á Íslandi orðið bylting í málefnum barna.

„Nú í sumar stekk ég aftur út í atvinnumennsku í tvö ár til þess að búa mínum börnum til betra umhverfi en þegar ég kem heim aftur langar mig að sjá þessa krakka í bættu umhverfi. 

Aðgerðaleysi síðustu ára hefur orðið til þess að hvert málið á fætur öðru springur í andlitið á kerfinu í fjölmiðlum þegar kemur að þessum hópi. Mig langar mikið að geta opnað blöðin á hverjum degi og lesið um týndan hamstur eða að einhver þjóðþekktur einstaklingur hafi verið að gifta sig. Ég mun allavega ekki henda í „er þetta frétt?“ heldur njóta þess að það sé pláss fyrir slíkar ekki-fréttir í okkar samfélagi.

Ég vona innilega að ný ríkisstjórn muni tala minna og gera meira en það er líklega eina leiðin til að þessi ríkisstjórn haldi velli, með því að láta verkin tala inni á vellinum. Það er ekkert mál að leysa öll mál á liðsfundum í handboltanum en áskorunin er að framkvæma hlutina þegar út á völlinn er komið. Við erum öll í sama liðinu,“ segir Björgvin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×