Lífið

Béarnaise-sósa verður Béarnaise- smjör á morgun

Friðgeir Einarsson skrifar
Grafík/Guðmundur Snær
Birta færir mér Treó í rúmið.



„Erna Rún sagði mér að gefa þér þetta,“ segir hún. Erna Rún er mamma hennar, Birta er nýtekin upp á því að ávarpa okkur foreldra sína með sérnöfnum. „Erna Rún segir að þú eigir að fara á fætur og gera sósu.“



Ég heyri að Erna Rún er að ryksuga frammi í stofu.



„Á ég að gera sósu?“ spyr ég. „Var mamma þín ekki búin að kaupa sósu?“ Ég reyni að reisa mig upp til að taka við Treó-inu, en mig svimar svo ég verð að leggjast aftur. Ég geri mér ekki grein fyrir hvort það er dagur eða nótt, það er kolniðamyrkur úti. „Þú verður að búa til sósu því Béarnaise-sósan sem hún keypti er ógeðslega slepjuleg og köld.“ Birta leggur glasið með Treó-inu á náttborðið hjá mér og fer fram.



„Takk, ástin mín,“ segi ég. Eiginlega hefði ég viljað fá að sækja mér Treó sjálfur. Hluti af heiluninni felst í ritúalinum: að leita að stauknum í baðskápnum, fiska töfluna upp úr honum, láta vatn renna í glas, setja töfluna í vatnið, fylgjast með henni freyða og leysast upp – fyrir utan fáeinar agnir sem setjast hægt eins og flygsur í snjókúlu. Drekka. Það er það sem Treó hefur fram yfir Panódíl. Áhrifin eru nokkurn veginn þau sömu en þegar maður fær sér Treó fær maður frekar á tilfinninguna að maður sé að gera eitthvað í sínum málum. Auk þess sem slitrur af álpappír eiga það til að losna af spjaldinu þegar maður fær sér Panódíl, maður þarf að vera einbeittur til að gleypa þær ekki með töflunum. Maður er sjaldnast einbeittur þegar maður fær sér Panódíl.



En ég segi Birtu þetta ekki. Ég er satt best að segja feginn að hún skuli sinna mér. Hún hefur breyst svo mikið síðustu mánuði. Það er svo stutt síðan hún var ljúft og skemmtilegt barn sem átti það til að stökkva upp í fangið á mér eins og hvolpur. Hún gat fengið mig til að gera hvað sem var. En núna er eins og hún þurfi ekkert á mér að halda. Hún lætur eins og hún þekki mig varla, jafnvel eins og hún fyrirlíti mig. Ætli ég verði ekki bara að sætta mig við það, þetta fylgir aldrinum. Hlutirnir verða að fá að hafa sinn gang; líf barnsins míns er ekki afþreying fyrir mig. Og líklega er þetta tímabundið ástand, sjálfsagt tekur hún mig aftur í sátt eftir fáein ár. En þá verður hún væntanlega orðin svo gott sem ný manneskja, fullorðin kona.



Ég þvinga sjálfan mig til að setjast upp og teyga drifhvítan vökvann úr glasinu.



Í gærkvöldi, eftir að Birta fór inn með símann sinn, opnuðum við Erna Rún rauðvínsflöskuna sem ég fékk frá vinnunni. Við gerðum það líka í fyrra; drukkum jólagjöfina frá vinnunni að kvöldi jóladags og hlustuðum á tónlist, þannig að það má segja að þetta sé nokkurs konar hefð. Mig minnir að það hafi verið notalegt í fyrra. En í gær vildi Erna Rún fara að sofa þegar hún var búin að drekka eitt glas, eiginlega bara hálft. Hún sagðist vera þreytt. Ég var að segja henni frá kúr sem mig langar til að prófa, og út frá því fórum við að tala um hungur í heiminum og áður en ég vissi af var ég farinn að tala um grein sem ég hafði lesið um skipulagðar nauðganir í stríði, um stelpu einhvers staðar úti í heimi sem var bundin við tré og nauðgað af mörgum hermönnum í einu.



„Þetta er stelpa á aldur við Birtu,“ minnir mig að ég hafi sagt. „Af hverju kom enginn henni til hjálpar? Af hverju bjargaði henni enginn?“ Kannski hefði ég ekki átt að tala um þetta.



Ég neyddist til að klára flöskuna sjálfur. Frekar en að gera ekki neitt kveikti ég á sjónvarpinu. Það var verið að endursýna mynd um bláar geimverur sem berjast fyrir umhverfisvernd. Mér gekk illa að fylgja söguþræðinum, kannski var ég orðinn fullur, en eftir því sem á leið fann ég fyrir sorg sem óx innra með mér eins og einhvers konar maðkur eða bjalla. Ég gat ekki varist hugsunum um hvernig við höfum farið með plánetuna okkar. Jöklarnir bráðna, skógarnir hverfa og fiskarnir í sjónum éta plast og mannasaur. Jörðin er að breytast í viðurstyggilegt helvíti. Hvernig ætli Birta og börnin hennar haldi jól í framtíðinni, þegar jörðin er annaðhvort orðin of heit eða köld til að það sé nokkur von til að komast af?



Ég slökkti ljósin og tók jólatrésseríuna úr sambandi af því að ég vildi ekki hætta á að önnur hvor þeirra mæðgna kæmi fram og sæi mig gráta. Það myndi eyðileggja jólin fyrir fjölskyldunni. En það kom enginn fram.



Loksins þegar mér tekst að standa upp úr rúminu fer ég inn í eldhús að fá mér kaffi. Á eldhúsbekknum liggur eitthvað rautt í lofttæmdri plastpakkningu. Líklega er þetta nautasteikin sem við ætlum að borða í kvöld. Það er annað sem er að verða nokkurs konar hefð; að borða nautasteik á annan í jólum. Erna Rún segir að hún verði alltaf svo þreytt á reyktu kjöti eftir hamborgarhrygginn á aðfangadagskvöld og hangikjötið á jóladag.



Erna Rún slekkur á ryksugunni og kemur inn í eldhús. Ég býð góðan daginn.



„Þú verður eiginlega að skreppa í Hagkaup og kaupa estragon. Helst ferskt,“ segir Erna Rún. „Við eigum egg og smjör. En ekkert estragon.“



Ég spyr Ernu Rún af hverju þessi viðsnúningur stafi; venjulega er það ég sem geri sósuna, ég er sá eini í fjölskyldunni sem hef lag á að þeyta rauðurnar. En fyrir þessi jól vildi Erna Rún kaupa tilbúna Béarnaise-sósu í fínni kjötbúð. Til að spara mér ómakið. Það getur verið að ég hafi talað fullmikið um það í fyrra hvað þetta er mikið tilstand.



„Birta vill að þú gerir sósuna,“ segir Erna Rún. „Hún segir að sér finnist ekkert varið í Béarnaise nema þú gerir hana.“



Þegar ég er að fara í skóna kallar Birta á mig innan úr herbergi. Hún spyr mig hvert ég sé að fara og þegar ég segist vera á leiðinni í Hagkaup að ná í estragon segist hún ætla að koma með.



„Þarftu að kaupa eitthvað?“ spyr ég.



„Ekki beint,“ segir Birta.



Birta er klædd í úlpu og köflóttar náttbuxur úr bómull, týpuna sem er merkt nafni framleiðandans á buxnastrengnum. Þegar hún sest inn í bílinn leggur hún þunnan hvítan plastpoka á mælaborðið og dregur símann sem við gáfum henni í jólagjöf upp úr úlpuvasanum. Við ökum af stað. Birta á eitthvað við símann, sjálfsagt er hún að senda vinum skilaboð. Við þegjum.



Þegar við stoppum á rauðu ljósi verður mér starsýnt á pokann. Í gegnum hvítt plastið má greina útlínur bókar og dökka stafi: Aðventa. Þessi bók var eins konar aukagjöf frá okkur til Birtu. Aðallega mér, það var mín hugmynd að gefa henni Aðventu.



Hún var búin að biðja okkur um að gefa sér hulstur utan um símann sem aukagjöf, það var það sem hana langaði í. En mig langaði til þess að gefa henni þessa bók. „Þér finnst þetta ef til vill skrítin gjöf núna,“ sagði ég þegar hún opnaði aukagjöfina, „en kannski langar þig að lesa hana seinna og þá skilurðu af hverju ég gaf þér hana. Ég las hana þegar ég var ungur maður og hún hafði mikil áhrif á mig.“



Hún var miklu frekar hissa en vonsvikin á svipinn, það kom mér skemmtilega á óvart. Reyndar var dálítið erfitt að lesa í hvernig henni leið.



„Þú getur skipt henni eftir jól, fengið þér hulstur utan um símann ef þig langar til,“ bætti mamma hennar við.



Ljósið er orðið grænt. Ég set í gír og ek af stað.



„Ertu byrjuð að glugga aðeins í Aðventu?“ spyr ég.



„Hvað ertu að tala um?“ spyr Birta án þess að líta upp úr símanum.



„Í bókina? Ertu byrjuð að lesa bókina?“



Hún lítur á pokann og segir svo nei, hún sé ekki byrjuð að lesa bókina. Hún heldur áfram að eiga við símann.



„Ég vissi ekki að þér þætti heimagerð Béarnaise svona góð,“ segi ég.



„Nei,“ segir hún. „Einmitt.“



„En þú vilt ekki tilbúna Béarn­aise?“



„Vil ég ekki?“



„Þú vilt ekki að við höfum sósuna sem við keyptum með steikinni? Sósuna sem mamma þín keypti?“



„Þorgeir!“ segir Birta, ygglir sig og ranghvolfir augunum.



„Fyrirgefðu. Ég er bara forvitinn. Mig langar svo að vita hvað þú ert að hugsa.“



Allt í einu lítur hún upp úr símanum og hugsar sig um. Ég reyni að ná augnsambandi við hana, mig langar að sjá þetta andlit sem er einhvern veginn hvorki barnslegt né fullorðinslegt, en ég þori ekki að líta af veginum of lengi.



„Tilbúna sósan er einhvern veginn alltaf eins,“ segir Birta. „Béarnaise-sósan þín, hún verður Béarnaise-smjör á morgun. Það er næs.“



Það er næstum ógjörningur að finna stæði við Hagkaup, á endanum leggjum við hjá annarri verslun og göngum yfir bílastæðið. Í anddyrinu er örtröð, margir eru klæddir sams konar náttbuxum og Birta. Sumir eru á leiðinni inn eins og við, aðrir eru á leiðinni út með troðfulla poka. Búðin var lokuð í gær, jóladag, og fólkið sjálfsagt að birgja sig upp af matvælum eftir að hafa ekki komist í búð í rúman sólarhring. Þegar ég kemst í gegnum mestu kösina sé ég að það er löng röð við þjónustuborðið þar sem hægt er að skipta gjöfum.



„Ætli þessi röð eigi stóran hlut í að skapa örtröðina, það eru allir brjálaðir í að skipta,“ segi ég við Birtu en átta mig á að hún er hvergi nálæg. Ég hef orðið viðskila við hana í þvögunni.



Ég bregð á það ráð að hringja í hana. Hún svarar, segir að sér finnist of þungt loft inni í búðinni og ætli að bíða við innganginn meðan ég næ í estragonið.



Ég finn hvergi ferskt estragon í grænmetisdeildinni og spyr strák um það sem er klæddur í appelsínugulan bol og ég geri ráð fyrir að vinni þarna. Hann rótar í nokkrum pakkningum af rósmaríni og úrskurðar svo að ferska estragonið sé annaðhvort búið eða ófáanlegt á þessum árstíma. Ég þakka honum fyrir.



Í kryddvörudeildinni finn ég þurrkað estragon.



Það eru raðir við alla kassa, þær ná í gegnum fatadeildina og langt inn í búð. Röðin sem ég vel endar hjá kassa fullum af sokkum sem er merktur „Herra-sokkar“. Það er ekki lengra síðan en í sumar að ég benti á þetta og sagði við Birtu: „En hvar er þá Frú Sokkar?“ Og hún hló.



Fyrir framan mig eru hjón með fulla kerru af matvælum; gosi, örbylgjumat, snakki, niðurskornu áleggi í lofttæmdum umbúðum, sósum og einhverju spili sem var mikið auglýst fyrir jólin. Þau eru bæði klædd í náttbuxur eins og Birta. Hvað er þetta? hugsa ég. Þetta er eins og einhver einkennisbúningur. Ég er kannski maður sem vaki einn alla nóttina og stúta rauðvínsflösku og grenja yfir bíómynd um blátt fólk úti í geimnum. En ég myndi aldrei láta sjá mig í svona buxum.



Ég finn Birtu aftur við kleinuhringjabúð í anddyrinu.



„Jæja,“ segi ég en hún svarar ekki. Hún eltir mig að bílnum án þess að líta upp frá símanum. Ratvísin er aðdáunarverð en pirrar mig samt. Við erum rétt sest inn í bílinn þegar hún fer að tæta umbúðir utan af blikhvítu plaststykki. Hún smellir því utan um símann sinn.



Þetta er hulstur.



„Varstu að kaupa þetta?“ spyr ég.



„Eiginlega, já,“ segir Birta og lítur á mig.



Þá tek ég eftir að plastpokinn með bókinni er horfinn. Ég er rétt að fara að spyrja hvað hafi orðið um hann en átta mig þá á ráðabrugginu. Hinni eiginlegu ástæðu þessarar verslunarferðar og hlutverkinu sem mér var úthlutað til að fléttan gengi upp.



Hún er klók, stelpan, hugsa ég meðan ég bakka út úr stæðinu. Ég er dálítið móðgaður, dálítið reiður, en jafna mig fljótt. Satt best að segja er ég glaður yfir að hafa getað gert eitthvað fyrir hana.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×