Sanchez sá um Palace

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Alexis Sanchez, leikmaður Arsenal.
Alexis Sanchez, leikmaður Arsenal. vísir/getty
Arsenal vann sigur á Crystal Palace á útivelli í lokaleik 20. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld.

Shkodran Mustafi kom Arsenal yfir eftir tæpan hálftíma þegar hann setti frákastið af skoti Alexandre Lacazette snyrtilega í netið eftir að Julian Speroni varði í markinu.

Wilfried Zaha átti frábæran leik fyrir heimamenn og hann lagði upp jöfnunarmark þeirra á 50. mínútu. Palace olli gestunum vandræðum í byrjun seinni hálfleiks, en þeir voru þó fljótir að ná stjórninni aftur.

Alexis Sanchez kom Arsenal aftur yfir á 62. mínútu og bætti svo við öðru marki sínu og þriðja marki Arsenal aðeins fjórum mínútum seinna.

Heimamenn gáfust þó ekki upp og komu til baka og klóruðu í bakkann með marki frá James Tomkins á síðustu mínútu venjulegs leiktíma. Það dugði þó ekki til, Arsenal hélt leikinn út og fór heim með þrjú stig.

Bæði lið áttu 16 skot í leiknum, en Skytturnar í Arsenal voru mun markvissari, níu tilraunir þeirra fóru á ramman á meðan aðeins skotin tvö sem mörkin komu upp úr hittu á markramman hjá heimamönnum.

Arsenal er nú með 37 stig í deildinni, jafn mörg og Tottenham sem situr sæti fyrir ofan liðið í deildinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira