Lífið

Veiktist eftir Þorláksmessusöng í miðbænum

Benedikt Bóas skrifar
Kristján lagðist í rúmið eftir Þorláksmessu.
Kristján lagðist í rúmið eftir Þorláksmessu. visir.is/Garðar
Það er hægt að segja að ég sé sprækur sem lækur núna,“ segir stórsöngvarinn Kristján Jóhannsson en hann þurfti að boða forföll í Bústaðakirkju um jólin, þar sem hann hefur sungið um árabil, vegna veikinda. Kristján veiktist á Þorláksmessu en hann söng í miðbænum ásamt Elmari Gilbertssyni og Jóhanni Friðgeiri Valdimarssyni.

Þeir félagar sungu á tveimur stöðum. Í garðinum við Canopy hótelið og við skautasvellið á Ingólfstorgi. Kalt var í veðri og segir Kristján að það sé ekkert sniðugt að syngja við slíkar aðstæður. „Það er annað mál að syngja úti erlendis en hér heima í mínus þremur er það ekki mönnum bjóðandi. Það fer alveg með mann og er mjög erfitt. Þá er maður með hálsinn heitan í þessum kulda.

Auðvitað erum við að gera þetta fyrir fólkið og það yljar manni að sjá bros á fólki. Þetta var mikið ævintýrakvöld og að mörgu leyti virkilega skemmtilegt því við fengum svo yndislegar viðtökur en það voru hnökrar á þessu kvöldi.“

Hann segist efast um að hann geri nokkuð svona aftur. Ekki bara vegna kuldans því skipulagsleysið og fagmennskan hafi ekki verið í neinum klassa. „Við sungum fyrst við Canopy og það var allt í góðu nema að píanistinn fór aftur fyrir sig og datt og meiddi sig. Það þarf að undirbúa svona viðburð betur og gera þetta almennilega. Mér fannst illa að þessu staðið. Við gátum lítið fylgst með hvað við vorum að gera því það vantaði mónitor til að heyra í okkur.

Hljóðið var líka langt frá því að vera í lagi og ég held að menn þurfi að vanda meira til verka. En eins og ég segi, þá var þetta ævintýrakvöld,“ segir kappinn hress og kátur sem fyrr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×