Erlent

Stefnir í að Wauquiez verði nýr leiðtogi franskra hægrimanna

Atli Ísleifsson skrifar
Forsetinn fyrrverandi, Nicolas Sarkozy, og Laurent Wauquiez.
Forsetinn fyrrverandi, Nicolas Sarkozy, og Laurent Wauquiez. Vísir/afp
Allt bendir til að hægrimaðurinn Laurent Wauquiez verði valinn nýr leiðtogi franskra Repúblikana í kvöld. Hinn 42 ára Wauquiez tilheyrir fylkingu forsetans fyrrverandi, Nicolas Sarkozy, og hefur einsett sér það beina spjótum sínum að Emmanuel Macron forseta.

Wauquiez er tveimur árum eldri en Macron og lærði við sama háskóla og forsetinn. Wauquiez verður ætlað að sameina flokkinn eftir að hann bað afhroð í forseta- og þingkosningunum í landinu vor og sumar.

Alls geta 234.908 flokksmenn kosið í leiðtogakjöri flokksins, en kosningin fer að stærstum hluta fram rafrænt og lýkur í kvöld. Le Monde segir flesta sammála um að ekki komi til með að þurfa aðra umferð til að tryggja kjör Wauquiez.

Fulltrúi hægrivængsins

Líkt og Sarkozy þá er Wauquiez fulltrúi hægrivængs flokksins. Í sjónvarpsviðtali í vor sagðist Wauquiez ekki líta á Donald Trump Bandaríkjaforseta sem fyrirmynd, en að ýmislegt mætti læra af honum. „Hann afhjúpar ýmislegt um lýðræði samtímans. Borgarar vilja ekki fólk sem segja þeim hvað þeir eiga að hugsa og hvað þeir hafa rétt á að segja,“ sagði Wauquiez.

Laurent Wauquiez er forseti héraðsstjórnar Auvergne-Rhône-Alpes, en á árunum 2011 til 2012 var hann ráðherra málefna æðri menntunar í ríkisstjórn Sarkozy.

Sögulegur valdaflokkur

Franskir Repúblikanar (Les Républicains) er annar tveggja flokka sem hafa verið við völd frá stofnun fimmta lýðveldis Frakka árið 1958. Áður bar flokkurinn nafnið UMP (L'Union pour un mouvement populaire).

François Fillon var forsetaefni flokksins í forsetakosningunum í vor, en hann hlaut ekki nægilega mörg atkvæði til að komast í síðari umferð kosninganna, þar sem Macron og Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, öttu kappi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×